Ítölsku lögregluþjónunum sem skutu hryðjuverkamanninn sem varð 12 manns að bana á jólamarkaði í Berlín í lok síðasta árs hefur verið komið fyrir á nýjum stöðum. Frá þessu greina ítalskir fjölmiðlar í dag.
Lögregluþjónarnir komu auga á hinn 24 ára Anis Amri fyrir utan Sesto San Giovanni-lestarstöðina í Mílanó á Þorláksmessu en fjórum dögum áður hafði Amri gert árásina á jólamarkaðinum í Berlín. Eftir að Amri hafði skotið og hæft lögregluþjóninn Christian Movio í öxlina skaut Lucas Scata, tæplega 30 ára lögregluþjónn, Amri til bana.
Frétt mbl.is: Árásarmaðurinn skotinn til bana
Ítölsku lögregluþjónarnir voru hylltir sem hetjur fyrir gjörðir sínar, m.a. af forsætisráðherra landsins, Paolo Gentiloni, fyrstu dagana eftir atvikið en fljótt fór að síga undan eftir að ummæli og ljósmyndir sem lögregluþjónarnir höfðu sett inn á samfélagsmiðla voru grafin upp. Sum þeirra voru rasísk og önnur gáfu til kynna stuðning þeirra við fasistastjórnina sem var skæð á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.
Af ótta við að ráðist yrði á lögregluþjónana tvo og þeim hugsanlega ráðinn bani var mönnunum komið fyrir undir eftirliti lögreglu og samfélagsmiðlum þeirra lokað. Nú hefur innanríkisráðuneytið heimilað flutning mannanna og ríkir leynd yfir því hvar þeir drepa nú niður fæti.