Pence skar á hnút þings í deilunni um DeVos

Bandaríkjaþing samþykkti í dag val Donald Trumps Bandaríkjaforseta á Betsy DeVos sem næsta menntamálaráðherra landsins. Hnífjafnt var í atkvæðagreiðslunni milli þeirra sem voru með og á móti því að DeVos hlyti starfið og þurfti varaforsetinn Mike Pence að grípa inn í og veita DeVos atkvæði sitt til að skera hnútinn.

Er þetta í fyrsta skipti sem varaforseti hefur þurft að grípa til slíkra ráðstafana gagnvart þinginu varðandi stjórnarskipan forseta.

DeVos var umdeildasta tilnefning Trumps í ríkisstjórn sína og kusu tveir þingmenn repúblikana gegn vilja meirihluta flokksmanna, en þær  Susan Collins og Lisa Murkowski kusu gegn vali Trump og sögðu DeVos vanhæfa til að vera æðsti yfirmaður þúsunda skóla, milljóna barna og menntastefnu stjórnvalda.

Eftir að Pence hafði greitt atkvæði sitt, tísti hann að staðfestingin hafi verið „atkvæði með því að öll börn ættu kost á heimsklassa menntun.“

Þingið hefur nú samþykkt fimm af þeim 15 ráðherrum sem Trump valdi í stjórn sína, en rúmar tvær vikur eru nú frá því að hann tók við embætti forseta. Val Trump á forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA og sendifulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum hafa þá einnig verið samþykkt.

Val Trump á  DeVos sem menntamálaráðherra er hans umdeildasta ráðherraval, en DeVos er ötull talsmaður þess að nota skattpeninga til að fjármagna rekstur einkaskóla.

Patty Murray öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins og fyrrverandi grunnskólakennari, sagði frammistöðu DeVos, þegar hún svaraði fyrirspurnum þingheims í síðasta mánuði, sýna með áberandi hætti hversu vanhæf hún væri til að gegna starfi menntamálaráðherra. „Enn er ósvarað spurningum um fjármálaflækjur hennar .... og skort á þekkingu grundvallar málum menntakerfisins,“ sagði Murray.

DeVos, sem er fyrrverandi formaður Repúblikanaflokksins, sótti hvorki menntun sína í ríkisrekna skólakerfið né heldur hefur hún starfað innan þess.

Stuðningsmenn DeVos lofa hana hins vegar í hástert sem öflugan talsmann þess að foreldrar hafi val um skóla. Tilheyrir hún samtökum sem hafa barist fyrir því að skatttekjur verði nýttar til að foreldrar geti fengið úttektarmiða, sem geri þeim kleift  að velja hvort að þeir sendi börn sín í einkaskóla eða ríkisrekinna skóla.

Repúblikanaþingmaðurinn Susan Collins var ein þeirra sem kaus gegn vilja …
Repúblikanaþingmaðurinn Susan Collins var ein þeirra sem kaus gegn vilja flokksins. Sagði hún DeVos vanhæfa til að gegna starfi menntamálaráðherra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka