Hópur kvenna beraði brjóst sín í Argentínu í gærkvöldi á samstöðufundi með konum sem voru stöðvaðar af lögreglu fyrir að hylja ekki brjóst sín á Necochea-ströndinni sem er í um 500 km fjarlægð frá höfuðborginni, Buenos Aires.
Samstöðufundirnir fóru fram í Buenos Aires, Mar del Plata og Rosario en þeir voru haldnir vegna þess að þremur konum, sem aðeins voru klæddar í neðri hluta bikinis, var gert af 20 lögreglumönnum sem umkringdu þær á ströndinni, að klæða sig í efri hluta bikinis eins og skot eða fara af ströndinni.
Málið vakti mikla athygli í Argentínu enda margir landsmenn orðnir þreyttir á tilskipunum stjórnvalda um hvað megi og hvað ekki. Noelia, 28 ára, sem tók þátt í samstöðufundi í gærkvöldi segir í samtali við AFP-fréttastofuna að það sé nóg komið af þessari karllægu hugsun og valdboði. „Við eigum líkama okkar og við getum sýnt hann ef okkur sýnist svo. Við erum ekki verslunarvara.“
Fjölmargir fylgdust með samstöðufundi kvennanna, þar á meðal karlar í jakkafötum sem tóku af sér sjálfur með konurnar á bak við sig. Fréttamaður AFP efast um að allir þeir hafi verið þarna til þess að sýna konum samstöðu.
„Þú getur ekki sleppt möguleikanum á því að sjá brjóst er það?“ sagði maður um sextugt sem AFP ræddi við.
Stjórnmálamaðurinn, Vilma Ripoll, segir að allir vilji sjá brjóst í sjónvarpinu en það séu alvöru brjóst sem fari fyrir brjóstið á fólki.
Þúsundir kvenna tóku þátt í berbrjósta mótmælum víða um Argentínu eftir að kona var rekin af opinberu svæði fyrir að gefa barni sínu brjóst.