Bandaríkjaher hefur upplýst Bandaríkjaþing um að hann muni veita heimild til þess að ljúka lagningu umdeildrar olíuleiðslu um Dakóta.
Afkomendur frumbyggja Bandaríkjanna og stuðningsmenn þeirra hafa mótmælt verkefninu harðlega, sem leiddi til þess að verkfræðideild Bandaríkjahers neitaði að gefa leyfi fyrir framkvæmdunum.
Þúsundir manna höfðu þá slegið upp tjaldbúðum þar sem leiðslan átti að liggja um.
Standing Rock Sioux-ættbálkurinn hefur lýst áhyggjum af mögulegri vatnsmengun og sagt að leiðslan myndi stefna í hættu heilögum söguminjum.
Fljótlega eftir að Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna lýsti hann því yfir að hann styddi lagninu olíuleiðslunnar.
Olíuleiðslan verður 1.886 km að lengd og fer um fjögur ríki. Lagningu hennar er nánast lokið nema þar sem mótmælendur hafast við í tjaldbúðum.