Hryðjuverkahópur handtekinn í Montpellier

Franskir hermenn standa vörð í Nice.
Franskir hermenn standa vörð í Nice. AFP

Franska hryðjuverkalögreglan hefur handtekið fjóra, þar á meðal 16 ára gamla stúlku, í Montpellier vegna gruns um að undirbúa hryðjuverkaárás. Stúlkan hafði birt öfgafull ummæli á netinu og lýst yfir stuðningi við hryðjuverkasamtök.

Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar var fólkið handtekið eftir að það keypti eldfiman vökva sem er notaður við sprengjugerð. Aðrir í hópnum eru 20 ára, 26 og 33 ára, allt karlar.

Heimagerðar sprengjur fundust við húsleit og er um að ræða búnað sem er svipaður þeim og notaður var í árásunum í París í nóvember 2015.

Fólkið ætlaði að útbúa nokkrar sprengjur sem sprengja átti í Frakklandi. Gríðarlegur viðbúnaður hefur verið í Frakklandi í tvö ár vegna hryðjuverkaárása sem hafa kostað yfir 200 manns lífið. Talið er að fólkið hafi ætlað sér að fremja sjálfsvígsárásir í París. 

Unga stúlkan á að hafa skrifað á samfélagsmiðla að hún vildi fara á átakasvæðin í Sýrlandi eða Írak og berjst fyrir hönd Ríkis íslams. 

Í síðustu viku var hermaður særður af árásarmanni sem var vopnaður tveimur sveðjum við Louvre safnið í París. Árásarmaðurinn er egypskur en hann neitar að tengjast hryðjuverkasamtökum.

Í fyrsta skipti sem elstu menn muna verður ekki gengið um Promenade des Anglais breiðgötuna í Nice á kjötkveðjuhátíð borgarinnar síðar í mánuðinum. Á Bastilludaginn, þjóðhátíðardag Frakka, í fyrra keyrði hryðjuverkamaður inn í hóp fólks við götuna og létust 84 í árásinni.

AFP

Á fréttamannafundi í dag kom fram að aldrei hafi áður verið jafn mikil öryggisgæsla á kjötkveðjuhátíðinni sem stendur yfir í Nice frá 11.-25. febrúar. Hátíðin er ein sú stærsta í heimi. 

Götuveislan verður í ár haldin í Promenade du Paillon garðinum en yfirleitt tekur um ein milljón gesta þátt í hátíðinni hið minnsta.

200 lögreglumenn muni gæta hliða inn í garðinn en ekki verður hægt að komast inn í garðinn öðruvísi en að fara í gegnum mikla öryggisleit. Greiða þarf fyrir aðgang inn í garðinn en hingað til hefur ekki þurft að greiða aðgang að hátíðinni. Undanfarin tvö ár hefur fækkað mjög í hópi gesta á kjötkveðjuhátíðinni eða allt frá því að árás var gerð á ritstjórnarskrifstofu ádeiluritsins Charlie Hebdo í París í byrjun janúar 2015.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert