Húsleit gerð hjá Mossack Fonseca

Frá Panama.
Frá Panama. AFP

Húsleit var gerð á skrifstofum lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama í nótt að kröfu saksóknara. Þar var leitað gagna um brasilíska verkfræðifyrirtækið Odebrecht, en það hefur verið staðið að því að múta háttsettum embættismönnum í Panama og fleiri ríkjum til að fá hagstæða samninga.

Eins og kunnugt er láku upplýsingar frá Mossack Fonseca í apríl í fyrra og komu þær upp um fjölda manns sem lögfræðifyrirtækið hafði aðstoðað við að fela fé sitt í skattaskjólum.

Ramon Fonseca, einn stofnenda Mossack Fonseca, neitar tengslum fyrirtækisins við Odebrecht. „Mossack Fonseca á ekki í neinu sambandi við Odebrecht,“ sagði Fonseca við fréttamenn.

Fonseca sakaði einnig forseta Panama, Juan Carlos Varela, um að þiggja fé frá Odebrecht. „Hann sagði mér að hann hefði þegið fé frá Odebrecht vegna þess að hann gæti ekki barist gegn öllum,“ sagði Fonseca og útskýrði mál sitt ekki frekar. Forsetinn neitar því að hafa þegið fé frá fyrirtækinu. Odebrecht hefur ekki svarað ásökunum.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka