Vilja ekki stöðva Brexit

AFP

Meirihluti Breta er andvígur því að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu verði stöðvuð samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins ComRes sem gerð var fyrir breska dagblaðið Independent.

Breska ríkisstjórnin hefur unnið að því að undirbúa útgöngu landsins úr sambandinu, sem kölluð hefur verið Brexit, frá því að meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta sumar að ganga úr því.

Spurt var í skoðanakönnuninni hvort breski Verkamannaflokkurinn ætti að reyna að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu og eru 64% því andvíg. Fram kemur í frétt Independent að 48% kjósenda Verkamannaflokksins væru sama sinnis en 39% væru hlynnt því að flokkurinn reyndi að koma í veg fyrir útgönguna.

Einnig var spurt um stuðning við stjórnmálaflokka. Íhaldsflokkurinn nýtur 41% fylgis, Verkamannaflokkurinn 26%, Breski sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir demókratar 11% hvor, Skoski þjóðarflokkurinn 5% og Græningjar 4%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert