Chileskur karlmaður, sem sakaður er um að hafa myrt rúmlega tvítuga japanska kærustu sína, lýsti yfir sakleysi við réttarhöld í heimalandinu.
Nicolas Zepeda Contreras kom í fylgd lögfræðings fyrir dómara í dag þar sem hann svaraði fyrir ásakanir þess efnis að hann hefði myrt Narumi Kurosaki 4. desember. Lík hennar hefur ekki enn fundist en talið er að Zepeda hafi myrt hana og flúið til Chile.
„Við neitum ákæru,“ sagði lögmaður Zepeda við upphaf málsmeðferðar í dag. Skjólstæðingur hans yfirgaf dómsal skömmu síðar.
Lögregluyfirvöld í Frakkland segja að hinn 26 ára gamli Zepeda sé grunaður um að hafa látið Kurosaki hverfa. Hann var aðstoðarkennari í háskólanum í Besançon þar sem Kurosaki nam en þau kynntust í Japan.
Lögfræðingur Zepeda neitaði að skjólstæðingur hans væri á flótta. „Við komum fyrir dómara af fúsum og frjálsum vilja,“ sagði lögfræðingurinn og bætti við að Zepeda myndi berjast gegn því að verða framseldur til Frakklands.
Nokkrir námsmenn sem búa á sömu hæð og Narumi á stúdentagörðum háskólans heyrðu háreisti að kvöldi 4. desember en síðan hefur hvorki fundist tangur né tetur af Narumi.
Anne-Laure Saillet, tvítugur námsmaður, segist hafa heyrt hávaða og síðan hávært óp. Hún segir að í fyrstu hafi hún talið að einhver væri að horfa á hryllingsmynd en svo hafi hún orðið áhyggjufull.