Hættu við að verðlauna þá sem skutu Amri

Mynd frá ítölsku lögreglunni sem sýnir Amri við lestarstöðina í …
Mynd frá ítölsku lögreglunni sem sýnir Amri við lestarstöðina í Mílanó. Lögreglumennirnir sem skutu hann eru sagðir hafa verið hallir undir fasisma. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi hugleiddu að verðlauna ítölsku lögreglumennina sem skutu Anis Amri, Túnisann sem myrti 12 manns er hann ók vöruflutningabíl inn í mannfjölda á jólamarkaði í Berlín. Þau hættu hins vegar snarlega við þá fyrirætlun er þau fréttu af stuðningi þeirra við fasisma, að því er fréttavefur Guardian greinir frá.

Ítölsku lögreglumennirnir Luca Scatà og Cristian Movio skutu  Amri til bana í Mílanó að morgni Þorláksmessu. Dráp lögreglumannanna á Amri var talið réttlætanlegt þar sem um sjálfsvörn hefði verið að ræða.

Guardian hefur eftir heimildarmanni sem þekkir vel til að þýska stjórnin hafi hugleitt að veita þeim  Scatà og Movio Bundesverdienstkreuz orðuna, en að hætt hefði verið við þegar stjórnvöld fréttu af færslum lögreglumannanna á samfélagsmiðlum.

Þannig birti Scatà, sem skaut skotinu sem varð Amri að bana, mynd af sér á Instagram fyrir rúmu ári sem sýnir hann heilsa að nasistasið. Scatà birti myndina með myllumerkinu #romanosaluto eða rómverska kveðjan, en fastistaflokkur Ítalíu nýtti einnig þessa kveðju, sem í dag telst til lögbrota í Þýskalandi.

Í annarri færslu sem dagsett er daginn sem hernámi nasista á Ítalíu lauk, sagði Scatà að ekki hefðu allir „tekið þátt í svikunum“. „Margir kusu að vera trúir fánanum og láta líf sitt fyrir hann. Ég tilheyri þeim hluta,“ sagði hann.

Þá birti Movio, sem særðist á öxl í skotbardaganum við Amri,  mynd af sér 2014 þar sem hann heldur uppi mynd af kókflösku með nafninu Adolf, portrettmynd af Hitler og orðunum „Takk brósi“.

Lögreglumennirnir, sem deildu ennfremur báðir efni frá ítalskir vefsíðu sem lýsir útlendingahatri, eyddu hins vegar síðum sínum á samfélagsmiðlum eftir skotbardagann við Amri.

Lög­regluþjón­arn­ir voru hyllt­ir sem hetj­ur fyr­ir gjörðir sín­ar, en fljótt fór að síga und­an eft­ir að um­mæli og ljós­mynd­ir sem lög­regluþjón­arn­ir höfðu sett inn á sam­fé­lags­miðla voru graf­in upp. Af ótta við að ráðist yrði á lög­regluþjón­ana tvo og þeim hugs­an­lega ráðinn bani var mönn­un­um komið fyr­ir und­ir eft­ir­liti lög­reglu og leynd yfir því hvar þeir drepa nú niður fæti.

Það telst lögbrot að tala máli fasisma á Ítalíu, en sjaldan er refsað fyrir slík brot. Þá segja sérfræðingar sem fylgjast með hægriöfgaöflum á Ítalíu að nokkuð sé um stuðning við Mússólíni og nýfasista innan lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka