„Nafnið hennar var Jyoti Singh“

Á Indlandi hefur dulnefnið Nirbhaya verið notað í allri umfjöllun …
Á Indlandi hefur dulnefnið Nirbhaya verið notað í allri umfjöllun um Jyoti Singh, enda bannar indverska löggjöfin nafngreiningu fórnarlamba nauðgana. AFP

Foreldrar konu sem var nauðgað og myrt í Delhi árið 2012 hafa óskað eftir því að safn sem heiðrar minningu hennar noti raunverulega nafnið hennar í heiti sínu til að uppræta fordóma gagnvart fórnarlömbum kynferðisofbeldis.

Sex menn réðust á Jyoti Singh og vin hennar um borð í strætisvagni í desember 2012. Hið ofbeldisfulla morð á Singh, 23 ára, vakti gríðarlega reiði á Indlandi og leiddi til margra vikna mótmæla út um allt land.

Singh var nemi í sjúkraþjálfun og þegar vísindasafn var opnað í borginni árið 2013 var ákveðið að helga nafn þess minningu hennar. Nafnið sem safnið notar er hins vegar ekki Jyoti Singh, heldur Nirbhaya, dulnefni sem henni var gefið í kjölfar árásarinnar þar sem indversk lög heimila ekki að fórnarlömb nauðgana séu nafngreind.

Badri Nath Singh og Asha Devi hafa hins vegar farið þess á leit við yfirvöld að nafni safnsins verði breytt til að endurspegla raunverulegt nafn dóttur þeirra.

„Af hverju ættum við að leyna nafni dóttur okkar?“ segir Singh. „Þetta var ekki dóttur minni að kenna. Og með því að leyna glæpum leyfum við fleiri glæpum að eiga sér stað.“

Hann sagðist stoltur af dóttur sinni og það væru gerendurnir sem ættu að vilja leyna nafni sínu. „Hún var gerð ódauðleg undir nafninu Nirbhaya en við viljum að samfélagið kynnist einnig stúlkunni sem við ólum upp, áður en brotið var gegn henni af nokkrum djöfullegum mönnum. Minningar eru sársaukafullar en nafn hennar verður áminning fyrir samfélagið um að leyfa ekki svona hlutum að gerast aftur.“

Devi, móðir hinnar myrtu, var fyrst til að nefna nafnið hennar opinberlega. Það gerði hún á fjöldafundi árið 2015, þegar verið var að minnast þess að þrjú ár væru liðin frá árásinni.

„Ég upplifi enga skömm,“ sagð hún þegar hún ávarpaði mannfjöldann. „Ég segi þetta fyrir framan ykkur öll, að nafnið hennar var Jyoti Singh. Þið verðið öll að kalla hana Jyoti Singh héðan í frá.“

Fórnarlömb nauðgana mæta miklum fordómum á Indlandi og stjórnmálamenn eiga það enn þá til að tengja árásir á konur klæðnaði þeirra og hegðun.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert