Saklaus í rússnesku fangelsi

Ildar Dadin - þessu mynd er tekin árið 2014 en …
Ildar Dadin - þessu mynd er tekin árið 2014 en hann hefur setið í fangelsi í 14 mánuði. AFP

Hæstiréttur Rússlands hefur krafist þess að stjórnarandstæðingurinn Ildar Dadin verði látinn laus úr fangelsi en hann var í desember 2015 dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að mótmæla.

Dadin var sá fyrsti sem dæmdur var eftir nýjum lögum í Rússlandi en samkvæmt þeim er það saknæmt að standa fyrir mótmælum. Dómarar við hæstarétt segja að vísa eigi málinu frá og að hann eigi að fá uppreisn æru. 

Sætti pyntingum í fangelsinu

Fram kom í máli Dadin í nóvember að hann hafi sætt pyntingum í fangelsinu í Norðvestur-Rússlandi. Yfirvöld hafa neitað ásökunum en fluttu hann í annað fangelsi.

Dómur hæstaréttar féll í dag en fyrr í mánuðinum úrskurðaði stjórnarskrárdómstóll landsins að taka ætti upp mál Dadin að nýju.

Dadin var dæmdur samkvæmt grein 212.1 sem kveður á um að ítrekuð brot gegn heimild til mótmála séu saknæmt athæfi. Fyrst var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi en dómurinn var mildaður á seinni stigum. Um þögul mótmæli af hans hálfu var að ræða, það er hann stóð á almannafæri með mótmælaskilti.

Niðurstaða stjórnlagadómstóls var sú að grein 212.1 ætti ekki við í þeim tilvikum sem mótmæli sköpuðu ekki hættu. 

Eiginkona Dadin, Anastasia, fagnar niðurstöðu dómsins en Dadin fékk ekki sjálfur að vera viðstaddur og kom hann fyrir dóminn í gegnum myndsímtal úr fangelsinu. Í viðtali við BBC segist Anastasia afar þakklát fyrir niðurstöðuna og að hún vonist til þess að grein 212.1 verði ekki beitt framar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert