Frömdu stríðsglæpi í Aleppo

Austurhluti Aleppoborgar er í raun rústir einar eftir orrustur þar …
Austurhluti Aleppoborgar er í raun rústir einar eftir orrustur þar síðustu misseri. AFP

Allar stríðandi fylkingar í orrustunni um borgina Aleppo í Sýrlandi gerðust sekar um stríðsglæpi. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Uppreisnarhópar réðu ríkjum í austurhluta Aleppo borgar mánuðum saman. Fyrir áramót hófst áhlaup Sýrlandshers á borgarhlutann sem endaði með því að þeir náðu þar völdum þann 22. desember.

Vægðarlaus framkvæmd árásar

Rannsókn Sameinuðu þjóðanna leiddi ennfremur í ljós að jafnvel brottflutningur óbreyttra borgara frá Aleppo eftir að stjórnarherinn náði þar völdum jafnast á við stríðsglæpi.

Í rannsókninni er einnig staðfest að sýrlenski flugherinn hafi staðið að baki árás sem tíu hjálparstarfsmenn féllu í skammt frá Aleppo þann 19. september. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að árásinni hafi beinlínis verið beint að bílalest hjálparstofnana. 

Segir í niðurstöðum nefndarinnar um þennan þátt stríðsins að sterklega megi gera ráð fyrir að árásin hafi verið skipulögð „af vandvirkni“ og framkvæmd af „vægðarleysi“ í þeim tilgangi að stöðva för hjálparstarfsmanna.

Ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta hefur harðneitað að hafa staðið að baki árásinni.

Notuðu efnavopn

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að stríðandi fylkingar í Aleppo notuðu efnavopn og aftökur á meðan fimm mánaða umsátri um borgina stóð. Aleppo var lengi helsta vígi uppreisnarmanna í Sýrlandi. 

Umsátur stjórnarhersins stóð frá 21. júlí-22. desember á síðasta ári. Því lauk með því að hermenn stjórnarhersins, sem nutu stuðnings Rússa, náðu borginni á sitt vald. Á þessum tíma gerði herinn daglegar loftárásir á borgina. 

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að það séu óyggjandi sannanir fyrir því að sýrlenskar flugvélar hafi sleppt eitruðum efnum úr lofti. Ekki er staðfest að rússneskar flugvélar hafi gert slíkt hið sama.

Loftárásir voru oftsinnis gerðar á sjúkrahús, markaði og íbúðarhús. 

Rannsóknarnefndinni var komið á fót árið 2011 til að rannsaka framgang og aðferðir sem notaðar voru í stríðinu í Sýrlandi.

Stöðugt ofbeldi í Aleppo

Þeir sem framkvæmdu rannsóknina lýsa Aleppo sem vettvangi „stöðugs ofbeldis“ þar sem óbreyttir borgarar í bæði austur- og vesturhluta borgarinnar hafi orðið fórnarlömb stríðsglæpa sem allar stríðandi fylkingar gerðust sekar um.

Sem dæmi segja þeir að þegar molna fór undan völdum uppreisnarmanna í austurhlutanum hafi vopnaðir hópar beitt valdi til að koma í veg fyrir að íbúarnir næðu að flýja. Var fólkið notað sem mannlegir skildir í orrustunni um borgina. 

 Er farið var að rýma borgina, samkvæmt samkomulagi sem gert var á milli stríðandi fylkinga, var fólki leyft að fara til vesturhluta Aleppo eða til Idlib, borgar sem var enn á valdi uppreisnarmanna. 

Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna höfðu eftirlit með þessum flutningum. Borgararnir fengu ekkert val um að vera áfram á heimilum sínum.

„Slíkt samkomulag jafnast á við stríðsglæpi þar sem óbreyttir borgarar eru þvingaðir til flutninga,“ segir í rannsóknarskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Segja skýrsluhöfundar að samkomulagið hafi verið gert af pólitískum ástæðum, ekki til að vernda borgarana. 

Björgunarmaður heldur á líki ungbarns í einu hverfa Aleppo.
Björgunarmaður heldur á líki ungbarns í einu hverfa Aleppo. AFP

Skelfilegasti kafli stríðsins

Orrustan um Aleppo er einn skelfilegasti kaflinn í stríðinu í Sýrlandi sem nú hefur staðið í sex ár. Um 310 þúsund manns hafa fallið í átökum í landinu frá upphafi stríðsins. 

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra lýsa austurhluta Aleppo sem „drápskassa“.

 Í nóvember kom að vendipunkti og ljóst var orðið að stjórnarherinn væri að eflast og ná yfirráðum víða. Þetta leiddi til fjölmargra hefndaraðgerða á báða bóga þar sem fólk var miskunnarlaust tekið af lífi. Dæmi eru um að sýrlenskir hermenn hafi drepið ættingja sína sem hafi stutt uppreisnarmennina. Þá er staðfest að hópar sem studdu stjórnarherinn tóku eiginkonu og dóttur eins leiðtoga uppreisnarmanna af lífi er þeir reyndu að brjóta sér leið inn í vesturhluta Aleppo, segir í skýrslunni.

Hersveitir Assads Sýrlandsforseta hafa notið stuðnings Líbana, Írana, Rússa og Íraka. Í skýrslu rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna er ekki sýnt fram á tengsl uppreisnarmanna við aðrar þjóðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert