Hefur ekki sætt ómannúðlegri meðferð

Breivik í dómsal í janúar.
Breivik í dómsal í janúar. AFP

Einangrunarvist fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik í norsku fangelsi telst ekki til „ómannúlegrar meðferðar“, samkvæmt niðurstöðu áfrýjunardómstóls sem snéri dómi undirréttar nú fyrir stundu.

„Breivik sætir ekki, og hefur ekki sætt, pyntingum eða ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð,“ stendur m.a. í úrskurði dómstólsins.

Lögmaður hins 38 ára Breivik, sem myrti 77 árið 2011, segir að hann hyggist áfrýja dóminum til hæstaréttar.

Það var eftirlifendum og ættingjum þeirra sem létust í Osló og í Útey mikið áfall þegar undirréttur komst að þeirri niðurstöðu í apríl í fyrra að norska ríkið hefði brotið gegn Breivik með því að halda honum í einangrun.

Breivik hefur ekki verið leyft að umgangast aðra fanga, sem lögmenn hans segja hafa haft alvarlega áhrif á andlega heilsu hans.

Ríkið áfrýjaði úrskurði undirréttar.

„Það eru engar greinilegar vísbendingar um að Breivik hafi orðið fyrir einangrunarskaða á meðan fangelsisvist hans hefur staðið,“ sagði  m.a. í dóminum sem kveðinn var upp í dag.

Áfrýjunardómstóllinn komst að sömu niðurstöðu og undirréttur varðandi friðhelgi einkalífs  Breivik, sem var ósáttur við að póstsendingar hans væru skoðaðar. Hvorugum dómstól þótti sú tilhögun ganga of langt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert