Nota loftbelgi til að segja Norður-Kóreubúum frá morðinu

Bræðurn­ir voru ekki sam­rýmd­ir (f.v.) Kim Jong-Nam og Kim Jong-Un, …
Bræðurn­ir voru ekki sam­rýmd­ir (f.v.) Kim Jong-Nam og Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Aðgerðarsinnar í Suður-Kóreu hyggist nú senda milljónir dreifirita sem segja frá morðinu á Kim Jong-Nam með loftbelg til Norður-Kóreu. Ekki er ljóst hvort og þá hversu mikið Norður-Kóreubúar vita um morðið á þessum hálfbróður Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu,  sem var myrtur með gjöreyðingavopni á flugvellinum í Kuala Lumpur í síðasta mánuði.

Kim er talinn hafa verið myrtur af tveimur konum á þrítugsaldri, en margir telja að morðið hafi verið framið að fyrirskipun ráðamanna í Norður-Kóreu. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafna hins vegar alfarið slíkum ásökunum. Þau hafa ekki nefnt hálfbróðirinn á nafn, en segja ásakanirnar vera sameiginlegt plott malasískra og suður-kóreskra stjórnvalda.  

Nota á risastórar gasblöðrur til að koma dreifiritinu til Norður-Kóreu, en AFP-fréttastofan hefur eftir einum aðgerðarsinnanum að dreifiritið innihald upplýsingar um morðið og myndir, sem m.a. sýna Kim Jong-Nam deyjandi í stól á læknastofu flugvallarins.

Í textanum er leiðtoga Norður-Kóreu lýst sem „djöflinum sem myrti bróður sinn“. Er Kim Jong-Un sagður hafa fyrirskipað morðið vegna þess að sumir telji hálfbróður hans, sem fyrsta son Kim Jong-Il, hafa verið réttborinn leiðtoga landsins.

„Við munum byrja að sleppa bæklingunum um miðjan mars,“ sagði Park Sang-Hak, leiðtogi aðgerðarsinnanna sem berjast fyrir auknu frelsi Norður-Kóreubúa.

Aðgerðunum er ætlað að láta „Norður-kóreska samlanda okkar vita hvílíkar óhemju ofbeldisaðgerðir eru framdar af Kim Jong-Un,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum.

Allar fréttir sem birtast í norður-kóreskum fjölmiðlum frá öðrum ríkjum sæta mikilli ritskoðun.

Aðgerðarsinnar í Suður-Kóreu, en í hópi þeirra er fjöldi landflótta Norður-Kóreumanna, hafa árum saman sent dreifirit með þessum hætti yfir landamærin. Hafa yfirvöld í Norður-Kóreu ítrekar hótað hernaðaraðgerðum vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka