Saksóknari í Frakklandi vill ekki útiloka að einhver úr Troadec-fjölskyldunni, sem hvarf sporlaust fyrir um þremur vikum, sé enn á lífi.
Tveir eru í haldi vegna hvarfsins, systir fjölskylduföðurins og maður hennar. Þau voru handtekinn í borginni Brest. Lögreglan segist hafa upplýsingar um að sonurinn Sebastien hafi lagt á ráðin um að koma fjölskyldu sinni fyrir kattanef. Hann var dæmdur árið 2013 fyrir líflátshótanir sem hann birti á bloggsíðu. Hann var þá aðeins unglingur og tók refsingu sína út í samfélagsvinnu. Nú er hann 21 árs.
Hér að neðan verður rakið hvað fram hefur komið við rannsókn málsins.
Lögreglan segir hvarf Troadec-fjölskyldunnar af heimili sínu dularfullt. Hún rannsakar málið nú sem morð og mannrán.
Fjölskyldan bjó í úthverfi borgarinnar Nantes í vesturhluta Frakklands. Pascal og Brigitte eru um fimmtugt og börnin þeirra tvö eru Sebastien, 21 árs, og Charlotte, átján ára. Þau sáust síðast 16. febrúar. Börnin voru heima hjá foreldrum sínum í vetrarfríi.
Það var systir Brigitte sem hafði samband við lögreglu vegna málsins.
Þegar lögreglan fór að rannsaka málið komu í ljós blóðblettir um allt húsið. Blóð fannst m.a. á farsíma Sebastiens og armbandsúri Brigitte. Blóðið var greint og í ljós kom að það tilheyrði hjónunum og syninum. Ekkert blóð úr dótturinni fannst í húsinu. Reynt hafði verið að þrífa upp blóðið.
Lögreglan segir að þegar í húsið var komið hafi verið eins og fjölskyldan hefði brugðið sér frá. Óhreint leirtau var í vaskinum, búið var að taka utan af rúmunum, þvo rúmföt og hengja þau til þerris innandyra. Þá var ísskápurinn fullur af mat.
Fjölskyldubílarnir tveir vor í innkeyrslunni en bíll Sebastiens var hvergi sjáanlegur. Er málið komst í fjölmiðla var farið að rifja upp annað mál sem gerst hafði á svipuðum slóðum árið 2011. Þá voru fimm úr sömu fjölskyldu myrtir. Sebastien gekk í sama menntaskóla og eitt fórnarlambið. Fjölskyldufaðirinn Xavier Dupont de Ligonnes er enn á flótta og hefur alþjóðleg handtökuskipun verið gefin út á hendur honum.
Á fimmtudag fann lögreglan bíl Sebastiens við kirkju skammt frá höfninni í Saint-Nazaire. Hann var þegar tekinn til rannsóknar. Le Monde greindi frá því að blóð hefði fundist í bifreiðinni.
Daginn áður höfðu skilríki Charlotte og buxur fundist í skógi í nágrenni Brest. Það var skokkari sem fann hlutina.
Sjónir lögreglu beindust í upphafi að Sebastien sem sagður er hafa glímt við geðræn vandamál og einnig vegna þess að hann hafði haft í frammi líflátshótanir áður. Sagði lögreglan að hún teldi að Sebastien hefði lagt á ráðin um að drepa alla fjölskylduna og fremja svo sjálfsvíg.
En nú hefur rannsóknin mögulega tekið aðra stefnu. Systir Pascals Troadec og mágur hans voru handtekin í borginni Brest, á svipuðum slóðum og munir í eigu fjölskyldunnar fundust.
Lögreglan hafði tekið skýrslu af parinu við upphaf rannsóknar sinnar.
Pierre Sennes, sem fer með rannsókn málsins, segist ekki vilja útiloka þann möguleika að einhver úr hinni horfnu fjölskyldu sé enn á lífi.