Lögreglan hefur fundið líkamsleifar við rannsókn sína á hvarfi frönsku Troadec-fjölskyldunnar. Fjölskyldan hvarf sporlaust 16. febrúar. Á sunnudag var mágur fjölskylduföðurins handtekinn, grunaður um að hafa myrt fjölskylduna vegna deilna um arf. Hann játaði síðar að hafa orðið fjölskyldunni að bana.
Líkamsleifarnar fundust á heimili mágsins, Hubert Caouissin. Hann fylgdi lögreglu í dag að býli sínu sem er á afskekktu svæði í norðvesturhluta Frakklands þar sem líkamsleifarnar fundust. Hann hefur viðurkennt að hafa brytjað líkin niður. Hann segist hafa brennt hluta af líkamsleifunum og grafið aðra.
Fjölskyldan, hjónin Pascal og Brigitte, bæði 49 ára, og börn þeirra, Sébastien og Charlotte, 21 og 18 ára, hurfu sporlaust af heimili sínu 16. febrúar og var eins og jörðin hefði gleypt þau í fyrstu. Síðan fóru að koma vísbendingar fram, svo sem lífsýni og hlutir í eigu þeirra sem vörpuðu ljósi á rannsóknina. Caouissin og eiginkona hans, Lydie, systir Pascals, voru handtekin á sunnudag og játaði hann fljótlega að hafa myrt fjölskylduna.
Caouissin sagði við yfirheyrslur að hann hafi talið að Pascal hafi haldið eftir gullmynt eftir andlát föður þeirra Lydie, en aðrir í fjölskyldunni hafi átt sama rétt á henni.
Hann verður ákærður fyrir morð en eiginkona hans verður ákærð fyrir að koma sönnunargögnum fyrir og aðstoða við glæpinn með því að aðstoða Caouissin við að farga líkunum.
Þess ber að geta að fréttir hafa verið misvísandi varðandi tengsl Caouissin við Troadec-fjölskylduna.
Uppfært kl. 16.34:
AFP hefur gert grein fyrir tengslum Caouissin við við Troadec-fjölskylduna. Maki Caouissin, Lydie Troadec, er systir Brigitte. Pascal Troadec og Caouissin eru því svilar.