Flestir þeirra 30 sem létust í árás vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams á stærsta hersjúkrahús Afganistan í morgun voru úr hópi sérsveita afganska hersins. Þetta segir Una Sighvatsdóttir, fyrrverandi blaðamaður á mbl.is, sem nú starfar á vegum Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Hún var stödd á sjúkrahúsinu í síðustu viku að hitta unga kvenlækna vegna viðtals sem hún var að vinna til birtingar í dag, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna.
Una er stödd í Helmand-héraði þessa dagana, þar sem net og símasamband er lélegt en í samtali sem mbl.is átti við hana í dag í gegnum Facebook segist hún búin að spyrjast fyrir um ungu konurnar sem hún vann viðtalið við í síðustu viku.
„Ég veit enn ekki um afdrif þeirra, en mér skilst þó að flestir hins látnu séu úr hópi sérsveita afganska hersins sem fóru á vettvang og börðust við vígamennina,“ segir Una. „Ég sendi dr. Soniu Baha [lækninum sem hún tók viðtal við] tölvupóst, en hef ekki fengið svar. Milliliður minn, sem hjálpaði mér að hitta þær í síðustu viku, er ungur bandarískur læknir sem starfar á sjúkrahúsinu. Ég heyrði i honum í dag, hann var á leiðinni í vinnuna en seinkaði um 20 mínútur og slapp fyrir vikið frá árásinni fyrir slembilukku. Hann hafði ekki fengið upplýsingar um hverjir væru látnir en ætlar að láta mig vita um leið og hann heyrir af stelpunum sem ég hitti.“
Una deildi á Facebook-síðu sinni í dag viðtalinu við dr. Baha.
Vígamennirnir klæddust sem læknar til að komast inn á sjúkrahúsið, en vopnaðir verðir eru fyrir utan sjúkrahúsið, sem er rétt fyrir utan „Græna svæðið“ svonefnda.
Una segir öryggisgæsluna í Kabúl vera gríðarlega alls staðar á „Græna svæðinu“, en innan þess eru allar helstu ríkisstofnanir og sendiráð auk höfuðstöðva NATO-sveitarinnar. „Spítalinn er rétt utan við þetta svæði. Þar eru vopnaðir verðir en hins vegar er líka mikil straumur af fólki, sjúklingum og aðstandendum og eflaust ómögulegt að tékka hvern og einn sem fer þar um,“ segir hún.
„Þegar ég fór þangað til að hitta kvenlæknana var ég í fylgd vopnaðra hermanna og í brynvarnarklæðum, eins og alltaf ef ég fer eitthvað út fyrir múrana hér. Á meðan ég var á sjúkrahúsinu í síðustu viku sprakk sprengja í nágrenninu, raunar í miðju viðtali sem ég var að taka við lækni þar. Hún sprakk of langt í burtu til að vera nokkur ógn við okkur en var þó nógu nálægt til að við heyrðum vel í henni, þannig að við drifum okkur að pakka saman og fórum.“
Öryggi erlendra starfsmanna er að sögn Unu tekið mjög alvarlega, sem sýni sig líklega einna best í því að undantekningalítið eru það heimamenn, ekki erlendir starfsmenn, sem farast í árásum vígamanna. „Það eru Afganar sem eru fórnarlömb þessara aðstæðna hér,“ segir hún.
Una bætir við að það hafi verið nokkuð um árásir i Kabúl undanfarið. „En ég held ég geti alveg sagt að þessi á spítalann í dag kom á óvart og vekur óhug og er að sjálfsögðu harðlega fordæmd af NATO.“
Hún segir að persónulega hafi það alveg hvarflað að sér fyrst í stað hvort hún hefði nokkuð átt þátt í að draga athygli að starfsfólki spítalans, sérstaklega konunum. „Þær verða fyrir hótunum fyrir að vinna þarna og að koma fram opinberlega í viðtali getur auðvitað gert þær að enn frekari skotmörkum. Um það var hins vegar rætt fyrir fram og þær gerðu sér fulla grein fyrir því en vildu samt tala við mig.“
Una kveðst enn fremur hafa verið fullvissuð um af þeim sem til þekkja að árásir eins og þessi í dag séu margar vikur í skipulagningu.
„Það getur vel verið að tímasetningin hafi verið viljandi af þeirra hálfu á baráttudegi kvenna, ég veit það ekki, en það var alla vega algjör tilviljun að ég var nýbúin að taka viðtöl þarna,“ segir hún.
Sjálf upplifir Una sig ekki í mikilli hættu dagsdaglega þarna úti. „Hér er gríðarleg öryggisgæsla í kringum allt sem ég geri,“ segir hún.
„En manni líður samt illa á svona degi. Ég er búin að vera mjög döpur yfir þessum atburðum og sérstaklega á meðan ég bið eftir að heyra um líðan stelpnanna sem ég kynntist.“