Sérfræðingur hjá tæknifyrirtækinu Unicorn Aerospace heldur því fram að gögn sem hann hafi undir höndum sanni að aukafarþegi hafi verið um borð í vél Malaysia Airlines, MH370, er hún hvarf árið 2014. Þeir sem koma að rannsókninni hafna þessum tilgátum alfarið.
Tæknisérfræðingurinn Andre Milne hélt þessu fram í viðtali við Daily Express. Sagði hann að þessi aukafarþegi hafi mögulega komið að brotlendingu vélarinnar.
Samkvæmt þeim skjölum sem Milne segist hafa undir höndum er ósamræmi í farþegalistum og þeirri farþegatölu sem stjórnvöld hafa gefið út. Hann segir að tölur flugfélagsins sýni að 228 flugsæti hafi verið seld í vélinni. Að auki hefðu tvö börn setið í fangi foreldra sinna.
Hann sagði við Express að því hefði verið haldið fram að fjórir farþegar hefðu aldrei farið um borð og þá væru eftir 224 flugsæti. Sé börnunum tveimur bætt við og tólf manna áhöfn hafi fjöldinn um borð verið 238, ekki 239. Því dragi hann þá ályktun að einn aukafarþegi hafi verið um borð.
Þeir sem koma að rannsókninni á hvarfi vélarinnar hafna þessu alfarið. Talsmaður rannsóknarteymisins segir við Express að listi með farþegum hafi verið gefinn út tveimur tímum áður en vélin fór í loftið. Sá listi geti breyst vegna breytinga á síðustu mínútum fyrir brottför.