Sækja um heimild fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP), hefur óskað eftir heimild til þess að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Sturgeon segir að óskað sé eftir því að atkvæðagreiðslan fari fram haustið 2018 eða vorið 2019. Í næstu viku verður tillagan lögð fram á skoska þinginu. 

Í október sagði Sturgeon að Skotar myndu óska eftir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu en um neyðarráðstöf­un væri að ræða þar sem ótt­ast er að Skot­ar missi tengsl við Evr­ópu­sam­bandið vegna út­göngu Bret­lands úr ESB.

Hún seg­ist sann­færð um að Skot­land hafi getu til þess að vera sjálf­stætt ríki og úr því verði að skera áður en Bret­land yf­ir­gef­ur ESB svo hægt verði að vernda hags­muni lands­ins.

Í sept­em­ber 2014 greiddu 55% Skota at­kvæði með því að vera áfram hluti af Bretlandi í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Þegar greidd voru at­kvæði um Brex­it í vor greiddu 62% Skota at­kvæði með því að vera áfram í ESB.

Sturgeon ræddi við fréttamenn í Edinborg í morgun en hún segir að Skotar verði að fá tækifæri til þess að greiða atkvæði um hvort þeir vilji harðlínu-Brexit eða að verða sjálfstætt ríki.

Hún segir Skota standa á gríðarlega mikilvægum krossgötum og hún muni stíga þau skref sem eru nauðsynleg til þess að tryggja Skotum rétt á að velja. Hvort þeir fylgi Bretum í átt að harðlínu-Brexit eða að verða sjálfstætt ríki sem geti tryggt samstarf við önnur ríki á jafnræðisgrunni.

Nicola Sturgeon.
Nicola Sturgeon. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert