Guzman með ofsjónir og heyrir tónlist

Joaquin Guzman leiddur fyrir dómara í New York í janúar.
Joaquin Guzman leiddur fyrir dómara í New York í janúar. AFP

Heilsu mexíkóska eiturlyfjabarónsins Joaquin „El Chapo“ Guzman, hrakar hratt í bandarísku fangelsi að sögn lögmanna hans. Guzman er einn alræmdasti glæpamaður samtímans og er nú í varðhaldi í Bandaríkjunum. Lögmenn hans gagnrýna aðbúnað hans harðlega. 

Guzman er 59 ára og er sakaður um að reka eitt stærsta eiturlyfjaveldi heims. Hann hefur tvisvar sinnum sloppið úr fangelsi í heimalandinu Mexíkó með ævintýralegum hætti. Hann var hins vegar gómaður á ný í fyrra og var svo framseldur til Bandaríkjanna í janúar. Þar er hann nú í einangrun í fangelsi í New York.

Lögmenn hans segja að andleg og líkamleg heilsa Guzman fari versnandi. Hefur lögmaðurinn skrifað 24 blaðsíðna bréf til dómara um málið.

„Hann á í erfiðleikum með að anda og er með hálsbólgu og höfuðverki,“ segir í bréfinu. Þá hafi Guzman séð ofsjónir og segist hafa heyrt tónlist í klefa sínum, jafnvel þó að útvarpið sé ekki kveikt.

Fái að hitta konuna

Lögmennirnir fara fram á það við dómarann að Guzman fái að tala við eiginkonu sína, annað hvort í síma eða eigin persónu. Þá vilja þeir að hann verði losaður úr einangrun. 

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa áður gagnrýnt aðbúnað í fangelsinu sem Guzman dvelur nú í. Þau segja hann ómannúðlegan og niðurlægjandi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögfræðiteymi Guzmans gagnrýnir aðbúnað hans í fangelsinu. Það var gert í byrjun febrúar en dómarinn vildi þá ekki blanda sér í málið.

Bandarísk yfirvöld eru hörð á því að Guzman eigi ekki að njóta frelsis. 

Lögmenn Guzmans benda á að klefinn sé lítill og aðeins með smáum glugga. Hann fái aðeins hreyfingu inni í klefanum og að máltíðir hans komi inn um litla lúgu á hurðinni. Þá segja þeir að ljós sé ávallt kveikt í klefanm. Þeir segja að hann hafi ekki hlý föt og fái aldrei að fara út.

Þann 20. janúar var Guzman leiddur fyrir dómara í New York. Hann er ákærður fyrir vopnasölu, eiturlyfjasölu og fleira. Ef hann verður fundinn sekur er líklegt að hann eyði því sem eftir er af ævinni í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert