Einn starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins særðist þegar hann opnaði bréf sem sprakk á skrifstofu sjóðsins í París skömmu fyrir hádegi. Að sögn lögreglu er maðurinn með áverka á höndum og andliti. Búið er að rýma skrifstofu AGS í 16. hverfi.
Í gær var komið í veg fyrir að bréfsprengja myndi springa á skrifstofu fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, en grískur öfga vinstri hópur, Conspiracy of Fire Nuclei, segir á vef sínum hafa sent bréfsprengjuna.
AGS er ein af þremur stofnunum sem veittu ríkissjóði Grikklands neyðarlán. Auk AGS kom fjármagnið frá Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu.