Ríkissaksóknari Danmerkur hefur ákveðið að framselja dóttur Choi Soon-Sil, konunnar sem hefur verið áberandi í hneykslismáli sem varð til þess að forseti Suður-Kóreu, Park Geun-Hye, var svipt embættinu.
Chung Yoo-Ra, tvítug dóttir konunnar sem hefur verið kölluð Raspútín Suður-Kóreu, var handtekin í Danmörku 1. janúar fyrir að hafa dvalið lengur í landinu en vegabréfsáritun hennar leyfði. Á þeim tíma höfðu stjórnvöld í Suður-Kóreu gefið út handtökuskipun á hendur henni. Í framhaldinu óskuðu þau eftir framsali hennar.
„Eftir að hafa farið vandlega yfir ósk Suður-Kóreu um framsal teljum við að málið uppfylli öll skilyrði um framsal í dönsku framsalslögunum,“ sagði Mohammad Ahsan, aðstoðarforstjóri embættis ríkissaksóknara í Danmörku.
Chung hefur neitað því að hafa brotið af sér. Hún hefur þrjá daga til að áfrýja ákvörðuninni til danskra dómstóla.
Hún er sögð hafa í gegnum tíðina keypt hross og þjálfað þau í Danmörku og sagði lögreglunni að hún hefði dvalið í landinu vegna þess.
Móðir Chung, sem var náinn vinkona Park, er sökuð um að hafa notað áhrif sín til að tryggja dóttur sinni inngang í virtan háskóla í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. Rannsókn hefur leitt í ljós að skólinn hleypti henni þangað inn á kostnað annarra umsækjenda með betri einkunnir.
Málið kom illa við Suður-Kóreubúa sem leggja mikið upp úr menntun fólks.
Þó nokkrir prófessorar við Ewha Women-háskólann, þar á meðal fyrrverandi skólastjóri, hafa verið rannsakaðir fyrir að hafa hleypt Chung fram fyrir aðra hæfari nemendur.