Mafíósar fá ekki að vera guðfeður

Dómkirkjan í Monreale.
Dómkirkjan í Monreale. Wikipedia/pjt56

Biskup á Sikiley hefur bannað þekktum mafíósum að taka að sér hlutverk guðföður í skírnum í umdæmi sínu. Michele Pennisi, biskup af Monreale, nærri Palermo, sagði á föstudag að hann hefði gripið til sinna ráða til að uppræta allan misskilning um föðurlegar hliðar mafíustjóra.

„Mafían hefur ávallt tekið hugtakið „guðfaðir“ frá kirkjunni til að ljá stjórum sínum trúarlegan virðuleika, en þessir tveir heimar eru hins vegar fullkomlega ósamrýmanlegir,“ sagði biskupinn.

Biskupsdæmi Pennisi nær til Corleone, fæðingarstaðar Don Corleone, hins goðsagnakennda guðföður úr skáldsögum Mario Puzo og kvikmyndum Francis Ford Coppola.

Í febrúar síðastliðnum komst Pennisi í fréttirnar fyrir að gagnrýna prest sem heimilaði syni eins af alræmdustu mafíustjórum Sikileyjar, Toto Riina, að vera guðfaðir í skírn.

Það fjaðrafok leiddi til ákvörðunar biskupsins nú í vikunni, sem hann viðurkennir að verði erfitt að fylgja eftir vegna „omerta“, þagnareiðsins innan mafíunnar.

„Ef einhver hefur ekki hlotið dóm getum við ekki dæmt fólk eftir orðrómi, án sönnunar,“ sagði Pennisi og ítrekaði að bannið næði ekki til mafíósa sem iðruðust. „Ef einhver þeirra viðurkennir að hafa gert rangt, biður um fyrirgefningu vegna þess illa sem hann hefur gert, þá getum við rætt leið betrunar.“

Árið 2008 bárust Pennisi líflátshótanir frá mafíunni eftir að hann bannaði útfarir þekktra glæpamanna.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka