Þrír meintir hryðjuverkamenn handteknir

Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið þrjá menn grunaða um að …
Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið þrjá menn grunaða um að tengjast árásinni á jólamarkað í Berlín. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa handtekið þrjá menn sem eru grunaðir um að tengjast árásunum á jólamarkað í Berlín síðustu jól þegar 12 voru myrtir og 56 slösuðust þegar Túnismaðurinn Anis Amri ók vöru­flutn­inga­bíl inn í mann­fjölda með fyrrgreindum afleiðingum. Lögreglan í Mílanó skaut Amri til bana nokkrum dögum síðar. 

Mennirnir eru sagðir fæddir í Líbanon en eru þýskir ríkisborgarar. Lögreglan handtók þá á Ataturk-flugvellinum í Istanbúl þegar þeir voru á leið til Evrópu. Ekki var greint nánar til hvaða lands þeir hugðust fara né hver tengsl þeirra voru nákvæmlega við árásina í Berlín. 

Einn hinna handteknu kom ólöglega til Tyrklands og er sagður hafa skipulagt hryðjuverk sem hann ætlaði að hrinda í framkvæmd einhvers staðar í Evrópu. Annar maður sem einnig var handtekinn er sagður hafa tengst Amri og er liðsmaður Ríkis íslams. 

Fjölmargar hryðjuverkaárásir hafa verið gerðar í Tyrklandi sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eru sögð bera ábyrgð á.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert