Dönsku bankarnir Nordea og Danske Bank eru í hópi þeirra banka sem rússneskir glæpamenn hafa notað til stórtækra peningaþvottaaðgerða. Danska fjármálaeftirlitið er nú sagt vera með málið til skoðunar.
Fjölmiðlar víða um heim fjalla um málið í dag, enda virðist málið teygja sig til 96 ríkja. Fréttavefur Berlingske Tidende greinir frá því að Danske Bank og Nordea, stærstu bankar Danmerkur, hafi verið í hópi þeirra banka sem glæpamennirnir nýttu til að þvo féð. Fjárhæðin sem fór í gegnum dönsku bankana er sögð vera að andvirði um sjö milljarða danskra króna.
Berlingske var í hópi þeirra fjölmiðla sem fengu aðgang að gögnunum, sem samtökin OCCRP, sem fjalla um spillingu og skipulagða glæpastarfsemi, deildu til fjölmiðla í 32 ríkjum. Segir blaðið peningana hafa verið flutta inn á reikninga í eiga skúffufyrirtækja sem skráð eru í skattaskjólum á borð við Seychellerne og Panama.
Þessar grunsamlegu peningafærslur áttu sér stað á árabilinu 2011 til 2014 og segir Berlingske vekja athygli að útibú Danske Bank í Eistlandi hafi verið mikið notað til viðskiptanna. Andvirði upphæðarinnar sem fór í gegnum útibúið í Eistlandi nemur tæpum sjö milljörðum danskra króna og deilist á 1500 færslur. Um 250 milljónir danskra króna virðast hins vegar hafa farið í gegn í 200 færslum hjá Nordea.
„Við höfum ekki haft stjórn á þessu,“ hefur Berlingske eftir talsmanni Danske Bank, en Nordea hefur ekki viljað tjá sig um fréttirnar að öðru leyti en því að einungis lítill hluti þeirra viðskiptavina sem rannsóknin beinist að séu enn í viðskiptum við bankann.
Fréttavefur danska ríkisútvarpsins hefur eftir Lars Krull, sérfræðingi við Álaborgarháskóla að peningafærslurnar hafi verið það stórar og óvenjulegar að eftirlitskerfi bankanna hefði átt að vekja athygli á þessu. „Þetta er óvenjulegt innlagnamunstur. Þetta eru háar upphæðir og þetta hefur viðgengist um langan tíma og þetta eru virkilega margar færslur,“ sagði Krull sem undraði sig á að peningaþvotturinn hefði fengið að viðgangast í allan þennan tíma.
„Bankarnir hafa að minnsta kosti ekki gert neitt til að stöðva þessar færslur sérstaklega hratt,“ segir hann. „Þetta hefði átt að uppgötvast miklu fyrr.“
Breska dagblaðið Guardian fjallar einnig um málið og segir bankana HSBC, Royal Bank of Scotland, Lloyds, Barclays og Coutts vera meðal þeirra 17 banka sem starfræktir séu í Bretlandi sem nú séu krafðir svara um vitneskju sína um málið og af hverju þeir hafi ekki hafnað grunsamlegum peningafærslum.
Gögnin sem Guardian hefur sýna að fjármunir að andvirði 20 milljarðar dollara virðast hafa verið fluttir frá Rússlandi á árabilinu 2010-2014. Rannsakendur sem nú skoða færslurnar telja endanlega upphæð fjárflutninganna þó kunna að vera mun hærri og að andvirði þeirra geti jafnvel numið allt að 80 milljörðum dollara.
Einn þeirra rannsakanda sem Guardian ræddi við sagði féð „augljóslega annaðhvort stolið eða að það ætti rætur sínar í glæpastarfsemi“. Talið er að hópur um 500 manna standi að peningaþvættinu og í hópnum sé að finna rússneska óligarka, bankamenn í Moskvu, sem og einstaklinga sem ýmist starfa fyrir eða hafa tengsl við rússnesku leyniþjónustuna FSB.