Brot af beinum sem fundust um borð í flaki Sewol-ferjunnar, sem fórst árið 2014, reyndust ekki vera mannabein eins og ættingjar þeirra sem fórust höfðu verið að vona.
Ráðuneyti sem fer með rannsókn málsins segir að um sé að ræða dýrabein. Þar með hafa vonir ættingjanna verið gerðar að engu en lík níu farþega ferjunnar, sem fórst undan ströndum Suður-Kóreu, fundust aldrei. Yfir 300 fórust er ferjan sökk.
Flak ferjunnar var tekið upp af hafsbotninum í síðustu viku eftir mjög svo flókna björgunaraðgerð, um þremur árum eftir að slysið varð. Flest fórnarlömbin voru skólabörn.
Kafarar hættu leit að líkum við flakið í nóvember árið 2014. Enn átti þá eftir að finna lík níu farþega. Talið var að þau gætu mögulega verið föst inni í flaki ferjunnar.
Í fyrstu hafði ráðuneytið sagt að mögulega hefðu fundist mannabein í flakinu. Í dag hefur það hins vegar tilkynnt að líklegast séu beinin af svínum.
Það hefur kostað langan tíma og mikla peninga að koma flaki ferjunnar upp á yfirborðið til frekari rannsóknar. Það var hins vegar skýr krafa ættingja þeirra sem fórust, ekki síst þeirra sem aldrei hafa fundist.
Rannsóknin á slysinu leiddi í ljós að mannleg mistök hefðu átt sér stað og væri um að kenna. Skipið hafði verið endurhannað ólöglega. Það var því mjög valt. Þá var of þungur farmur um borð.