Aldur Doris Day er afstæður

Doris Day árið 1957.
Doris Day árið 1957. Wikipedia

Doris Day taldi sjálf að hún ætti 93 ára afmæli í dag en nú hefur komið í ljós að hún er fædd árið 1922 ekki 1924 eins og hún taldi. Doris Day fagnar því 95 ára afmæli í dag.

Kvikmyndastjarnan Doris Mary Ann Kappelhoff hefur alltaf haldið að hún hafi fæðst 3. apríl 1924 en um helgina fékk hún það staðfest hjá Ohio-ríki að fæðingarvottorðið segði annað, árið sem hún fæddist er tveimur árum fyrr en áður var talið. 

Stilla úr Calamity Jane.
Stilla úr Calamity Jane.

„Ég hef alltaf sagt að aldur er bara einhverjar tölur,“ segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær. „Ég hef aldrei velt afmælisdögum mikið fyrir mér en það frábært að vita það loksins hversu gömul ég er í raun og veru,“ segir hún enn fremur.

Doris Day lék meðal annars í  Pillow Talk, Calamity Jane, The Pajama Game og Move Over Darling. Talsmaður hennar, Charley Cullen Walters, segir í samtali við Guardian að margir hafi velt vöngum yfir aldri leikkonunnar og ýmislegt þar sagt. Þau hafi oft verið spurð og því sé gott að svarið liggi fyrir í eitt skipti fyrir öll. 

Hann segir að útgáfan sem hann hafi heyrt sé sú að þegar Doris tók að sér hlutverk í kvikmynd ung að árum hafi aldur hennar verið misritaður. En hvort það er rétt viti hann ekki né heldur leikkonan. 

Leikkonan Bettie White er mikil vinkona Day og hafa þær oft grínast með að White væri miklu eldri en nú hefur komið í ljós að það eru aðeins rúmir tveir mánuðir í stað tveggja ára á milli þeirra. 

Fyrir einhverjum árum sagði Day á afmælisdaginn sinn að aldur væri afstæður og að hún hefði miklu meiri áhuga á að ræða mál sem henni finnst mun merkilegra – velferð dýra. Árið 1978 setti Doris Day á laggirnar stofnunina Doris Day Animal Foundation en helsta markmið stofnunarinnar er að safna fé til að vernda dýr. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert