Kennsl borin á árásarmanninn

Lögregla og sjúkraliðar bera slasaða af vettvangi sprengingarinnar.
Lögregla og sjúkraliðar bera slasaða af vettvangi sprengingarinnar. AFP

Maðurinn, sem grunaður er um að standa að sprengingunni sem varð í neðanjarðarlest í Sankti Pétursborg í Rússlandi í morgun, er á þrítugsaldri og frá Mið-Asíu að sögn rússneskra fjölmiðla. 45 manns hið minnsta særðust í sprengingunni, sem varð er neðanjarðarlest var á leið milli tveggja lestarstöðva.

Rússnesku fréttastofurnar Interfax og Tass segja að kennsl hafi verið borin á manninn, en BBC segir fréttastofurnar ekki á einu máli um hvort um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða.

Forsætisráðherra Rússlands, Dmitry Medvedev, birti færslu á samfélagsmiðlinum Facebook í dag þar sem hann sagði um hryðjuverkaárás að ræða. Lögregla rannsakar nú sprenginguna á þeim forsendum, en hefur þó ekki útilokað að ástæður sprengingarinnar kunni að vera aðrar. 

Myndi sýnir skemmdir á lestinni eftir sprenginguna.
Myndi sýnir skemmdir á lestinni eftir sprenginguna. AFP

Bjargaði mannslífum með því að aka áfram

Fyrstu fregnir af atburðinum gáfu til kynna að tvær sprengingar hefðu orðið á sitt hvorri neðanjarðarlestarstöðinni, en rannsókn leiddi síðar í ljós að einungis var um eina sprengju að ræða. Önnur sprengja fannst hins vegar á Ploshchad Vosstaniya-lestarstöðinni og var hún gerð óvirk.

Svetlana Petrenko, sem er í hópi rannsakendanna, sagði rússneskum fjölmiðlum að sú ákvörðun lestarstjórans að aka lestinni áfram að næstu stöð eftir að sprengingin varð, hefði án efa bjargað mannslífum, því með því hefði verið hægt að koma fólki fyrr undir læknishendur.

Íbúar Sankti Pétursborgar taka þátt í minnngarathöfn um fórnarlömbin nú …
Íbúar Sankti Pétursborgar taka þátt í minnngarathöfn um fórnarlömbin nú í kvöld. AFP

Andrei Przhezdomsky, yfirmaður hryðjuverkadeildarinnar, sagði enn ekki staðfest hvernig sprengju var um að ræða, eða hvað olli sprengingunni. Fundur sprengjunnar á Ploshchad Vosstaniya-lestarstöðinni þykir hins vegar gefa til kynna að um skipulagða árás hafi verið að ræða.

Kona meðal mögulegra tilræðismanna

Interfax segir rannsókn lögreglu nú beinast að 23 ára manni frá Mið-Asíu, sem vitað sé til að hafi tengsl við öfgasamtök múslima. Hann hafi farist í sprengingunni, en að búið sé að bera kennsl á lík hans. Tass-fréttastofan segir þá konu einnig hafa verið meðal mögulegra tilræðismanna.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti fundar með yfirvöldum í Sankti Pétursborg um …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fundar með yfirvöldum í Sankti Pétursborg um sprenginguna. AFP

Talsmaður forsetaembættisins, Dmitry Peskov, hefur hins vegar ekki viljað staðfesta að um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða. Rússnesk yfirvöld hafa verið varkár við að lýsa yfir hver beri ábyrgð á sprengingunni og var m.a. yfirlýsing frá ríkissaksóknara, um að þetta hafi verið hryðjuverk, fljótt dregin til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert