Maðurinn sem sprengdi sprengju í neðanjarðarlestarkerfi St. Pétursborgar með þeim afleiðingum að 14 létust og tugir særðust, hét Akbarjon Djalilov.
Hann bar einnig ábyrgð á sprengju sem komið var fyrir í annarri lest. Sérfræðingum tókst að aftengja þá sprengju svo hún sprakk ekki.
Lögreglan rannsakar árásina sem hryðjuverk. Um sjálfsmorðsárás var að ræða.
„Lögreglan hefur borið kennsl á manninn sem sprengdi sprengju um borð í lest í neðanjarðarlestarkerfi St. Pétursborgar,“ segir í yfirlýsingu frá stjórnvöldum. „Hann hét Akbarjon Djalilov.“
Í yfirlýsingunni segir að kennsl hafi verið borin á árásarmanninn með lífsýnarannsókn. Lífsýni úr honum fundust einnig á tösku sem önnur sprengja var í á annarri lestarstöð í borginni.
Einnig var stuðst við upptökur úr öryggismyndavélum við að bera kennsl á árásarmanninn. Yfirvöld í Kirgistan hafa sagt að maðurinn sé fæddur árið 1995, fæddur þar í landi en rússneskur ríkisborgari. Rússnesk yfirvöld hafa ekki staðfest það.