80% stúlknanna limlestar

00:00
00:00

Salsa Djaf­ar ber gyllta kór­ónu skreytta borðum og er klædd fjólu­blá­um kjól til að marka stór­an áfanga; í dag verður hún umskor­in. Salsa er 18 mánaða göm­ul og ösk­ur fylla húsið þegar anda­lækn­ir­inn legg­ur hvít klæði yfir sig og stúlk­una og sker af kyn­fær­um henn­ar.

Lækn­ir­inn svo­kallaði not­ar hníf til að fjar­lægja hett­una yfir sníp ung­barns­ins. Að verk­inu loknu sting­ur hún hnífn­um í sítr­ónu und­ir vök­ul­um aug­um ætt­ingja barns­ins. Salsa hef­ur nú verið hreinsuð af meint­um synd­um og er form­lega múslimi.

„Það er erfitt að horfa á hana gráta en þetta er hefðin,“ seg­ir faðir henn­ar Ar­jun Djaf­ar, 23 ára verkamaður.

Umsk­urður kvenna, eða kyn­færalim­lest­ing eins og verknaður­inn er kallaður á Vest­ur­lönd­um, hef­ur verið stundaður í marg­ar kyn­slóðir á Indó­nes­íu. Landið er fjöl­menn­asta ríkið þar sem meiri­hluti íbúa er múslim­ar og kyn­færalim­lest­ing­ar eru af mörg­um álitn­ar mann­dómsvígsla.

Sam­einuðu þjóðirn­ar for­dæma gjörn­ing­inn og stjórn­völd freistuðu þess eitt sinn að banna hann en andstaða frá trú­ar­yf­ir­völd­um og víðtæk­ur stuðning­ur við lim­lest­ing­arn­ar hafa orðið þess vald­andi að ómögu­legt hef­ur reynst að koma í veg fyr­ir þær.

Kyn­færalim­lest­ing­arn­ar eru hvergi tíðari en í Gorontalo, íhalds­sömu svæði á aðal­eyj­unni Sulawesi, þar sem at­höfn­inni fylgja ýms­ir aðrir helgisiðir og hátíðar­höld.

Sam­kvæmt at­hug­un­um stjórn­valda hafa 80% stúlkna í Gorontalo 11 ára og yngri verið beitt­ar kyn­færalim­lest­ing­um. Á landsvísu er hlut­fallið 50%.

Salsa Djafar öskrar á meðan skorið er af kynfærum hennar. …
Salsa Djaf­ar öskr­ar á meðan skorið er af kyn­fær­um henn­ar. Hún er 18 mánaða göm­ul. AFP

Skylda

Þrátt fyr­ir sárs­auk­ann sem gjörn­ing­ur­inn veld­ur og vax­andi and­stöðu inn­an­lands og utan, horfa íbú­ar Gorontalo, sem flest­ir eru fá­tæk­ir hrís­grjóna­bænd­ur, til lim­lest­ing­anna sem skyldu.

Anda­lækn­ir­inn Khadijah Ibra­him, sem erfði starfið frá móður sinni, seg­ir „óskorn­ar“ stúlk­ur í hættu á að þróa með sér „and­leg vanda­mál og fatlan­ir“. Aðrir á svæðinu segja lim­lest­ing­una koma í veg fyr­ir laus­læti þegar stúlk­urn­ar eld­ist og þá trúa marg­ir því að bæn­ir óskor­inna kvenna falli á dauf eyru.

Því fer þó fjarri að kyn­færalim­lest­ing­ar séu aðeins stundaðar á strjál­býl­um svæðum. Í Djakarta eru stúlk­ur einnig „umskorn­ar“ en þar er um að ræða mild­ari út­gáfu gjörn­ings­ins, þar sem látið er nægja að gera gat á sníp­hett­una með nál.

Til að koma til móts við menn­ing­ar­leg­ar og trú­ar­leg­ar kröf­ur hafa stjórn­völd fallið frá því að reyna að banna kyn­færalim­lest­ing­ar en hafa þess í stað freistað þess að upp­ræta skaðvæn­legri út­gáf­ur „umsk­urðar­ins“ og tryggja ör­yggi.

Yf­ir­völd segja að sú út­gáfa gjörn­ings­ins sem er hvað út­breidd­ust á Indó­nes­íu, það að gata hett­una með nál, flokk­ist ekki til kyn­færalim­lest­inga.

Salsa situr hjá móður sinni á meðan athöfnin stendur yfir.
Salsa sit­ur hjá móður sinni á meðan at­höfn­in stend­ur yfir. AFP

Sann­leik­ur­inn er sá að aðferðirn­ar sem notaðar eru á Indó­nes­íu eru ekki jafn gróf­ar og þær sem beitt er víða í Afr­íku og Mið-Aust­ur­lönd­um, þar sem sníp­ur­inn er jafn­vel fjar­lægður eins og hann legg­ur sig og skapa­barm­arn­ir saumaðir sam­an.

Sam­einuðu þjóðirn­ar eru hins veg­ar ósam­mála niður­stöðu indó­nes­ískra yf­ir­valda og skil­greina kyn­færalim­lest­ing­ar (FGM) sem „skaðvæn­lega aðgerð á kyn­fær­um kvenna í öðrum en lækn­is­fræðileg­um til­gangi“.

Alþjóðasam­tök­in segja ávinn­ing­inn af FGM eng­an og þá geti lim­lest­ing­arn­ar valdið ófrjó­semi og aukið lík­urn­ar á vand­kvæðum við barns­b­urð.

Ekki í Kór­an­in­um

Kyn­færalim­lest­ing­ar hafa á síðustu árum orðið hita­mál á Indó­nes­íu, þar sem aðgerðasinn­ar og jafn­vel stór sam­tök múslima hafa sagt þær brjóta gegn yf­ir­ráðarétti kvenna yfir eig­in lík­ama.

„Ég tel að það séu eng­in vers í trú minni sem heim­ila umsk­urð kvenna; hann er ekki í Kór­an­in­um,“ seg­ir Khorirah Ali, sem á sæti í nefnd stjórn­valda um kyn­bundið of­beldi.

Næst­stærstu sam­tök múslima í land­inu, Muhamma­diyah, ráðleggja fylgj­end­um sín­um að taka ekki þátt í kyn­færalim­lest­ing­um en stærstu sam­tök­in, Nahdlatul Ulama, og helstu trú­ar­yf­ir­völd eru fylgj­andi hinum svo­kallaða umsk­urði.

80% stúlkubarna í Gorontalo, 11 ára og yngri, hafa verið …
80% stúlku­barna í Gorontalo, 11 ára og yngri, hafa verið umskor­in. AFP

Stjórn­völd hafa farið fram og aft­ur í mál­inu síðustu ár.

Árið 2006 bannaði heil­brigðisráðuneytið lækn­um að fram­kvæma kyn­færalim­lest­ing­ar og sagði ávinn­ing­inn eng­an, en trú­ar­yf­ir­völd úr­sk­urðuðu á móti um „göfgi“ allra kvenna sem gengj­ust und­ir aðgerðina.

Nokkr­um árum síðar drógu stjórn­völd í land og sögðu að þeir sem hefðu til þess leyfi mættu fram­kvæma aðgerðina að því gefnu að þeir gerðu ekki annað en að „rispa sníp-hett­una“.

Seinna var fallið frá því en ráð skipað um ör­yggis­viðmið.

Aðgerðasinn­ar segja mis­vís­andi skila­boð frá yf­ir­völd­um vekja rugl­ing um það hvað megi en á meðan tíðkast enn skaðvæn­leg­ar lim­lest­ing­ar á borð við þær sem fram­kvæmd­ar eru í Gorontalo.

Jurna­l­is Udd­in, sér­fræðing­ur í kyn­færalim­lest­ing­um við Yarsi-há­skóla í Djakarta, sem einnig sit­ur í ráðgjafa­nefnd stjórn­valda, seg­ir að leggja eigi áherslu á að hvetja fólk til að iðka hinar síðu skaðlegu út­gáf­ur aðgerðanna.

„Að reyna að út­rýma hefðinni er eins og synda gegn straumn­um,“ seg­ir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert