„Það hafa orðið dauðsföll og margir eru særðir,“ sagði Nina Odermalm Schei, talskona sænsku leyniþjónustunnar Sapo, í samtali við AFP í dag, eftir að flutningabíl var ekið inn í fólksfjölda fyrir utan Ahlens-verslunarmiðstöðina í miðbæ Stokkhólms í dag.
Að minnsta kosti þrír eru látnir og átta særðir. „Svíþjóð hefur orðið fyrir árás. Allt bendir til hryðjuverkaárásar,“ sagði forsætisráðherrann Stefan Löfven.
Myndir af vettvangi sýna stóran bláan flutningabíl með illa farinn undirvagn inni í verslunarmiðstöðinni. Í samtali við AFP sagði talskona flutningafyrirtækisins Spendrups að bifreiðinni hefði verið stolið við veitingastað þar sem ökumaður hennar var að afhenda sendingu.
Vitni lýsa skelfingu og ringulreið.
Maður að nafni Dimitris sagði við Aftonbladet að flutningabíllinn hefði birst mjög skyndilega. „Ég sá ekki hvort einhver var undir stýri en hann var stjórnlaus. Ég sá hann aka yfir að minnsta kosti tvo. Ég hljóp eins hratt og ég gat þaðan,“ sagði hann um atburðarásina.
Hinn 66 ára Leander Nordling var að versla í Ahlens þegar hann heyrði háværan hvell. „Þetta hljómaði eins og sprengja að springa og reyk hóf að leggja inn um aðalinnganginn,“ sagði hann.
Nordling og aðrir viðskiptavinir verslunarinnar leituðu skjóls í ræstingageymslu.
„Eftir það var byggingin rýmd. Það tók fjöldi varða á móti okkur fyrir utan og þeir hvöttu okkur til að yfirgefa vettvang tafarlaust.“
Atvikið átti sér stað kl. 14.53 að staðartíma, á horni verslunarinnar við Drottninggatan, stærstu göngugötu borgarinnar, og rétt fyrir ofan aðalneðanjarðarlestastöðina.
Þykkan reykjarstrók lagði frá svæðinu en á sama tíma og lögregla girti það af dreif fólk að. Lögreglubifreiðar hafa farið um borgina í kjölfar árásarinnar og notað hátalara til að hvetja fólk til að halda beint heim og forðast að safnast saman í hópum.
Miðborginni hefur verið lokað, aðallestarstöðin rýmd og fátt um fólk á ferli. Þá liggja allar ferðir í neðanjarðarlestakerfinu niðri. Þyrlur sveima yfir borginni og mikill fjöldi lögreglu- og sjúkrabifreiða er á vettvangi.
Viðbrögð evrópskra leiðtoga einkenndust af samstöðu en Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði um að ræða „árás á okkur öll“. Talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara bar kveðjur til íbúa Stokkhólms, hinna særðu og viðbragðaðila og sagði: „Við stöndum saman gegn hryðjuverkum.“
Árásin er sú síðasta í röð árása í Evrópu þar sem hryðjuverkamenn hafa beitt bifreiðum sem vopnum. Sú mannskæðasta átti sér stað 14. júlí í fyrra í Frakklandi þegar maður ók flutningabíl inn í mannfjölda í Nice. 86 létust í árásinni.
Maðurinn var skotinn til bana af lögreglu en hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu árásinni á hendur sér.
Í síðasta mánuði varð Khalid Masood, 52 ára Breti, fimm að bana þegar hann ók á gangandi vegfarendur á Westminster-brú og stakk lögreglumann. Hann var sömuleiðis skotinn til bana af lögreglu.
Þá létust 12 þegar maður ók flutningabíl inn í hóp af fólki á jólamarkaði í Berlín í desember sl. Hann var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó fjórum dögum síðar en Ríki íslams lýsti árásinni á hendur sér.
Samtökin hvöttu til árása af þessu tagi árið 2014 og gáfu leiðbeiningar um hvernig myrða mætti fólk með steinum og hnífum, eða með því að aka yfir það.
Árásirnar hafa ekki eingöngu átt sér stað í Evrópu því árið 2014 ók maður tvo hermenn niður í Montreal í Kanada. Annar þeirra dó. Árásarmaðurinn var skotinn af lögreglu þegar hann klifraði út úr eyðilagðri bifreiðinni og sveiflaði hnífí.