Lögregluyfirvöld í Úganda hafa handtekið virtan fræðimann fyrir að gagnrýna eiginkonu forsetans Yowen Museveni á samfélagsmiðlum. Stella Nyanzi gagnrýndi Janet Museveni, sem er menntamálaráðherra landsins, á Facebook eftir að stjórnvöld féllu frá loforðum sínum um að sjá námsstúlkun fyrir ókeypis dömubindum.
Emilian Kayima, talsmaður lögreglunnar, staðfesti að Nyanzi hefði verið hneppt í varðhald á föstudag og yrði leidd fyrir dómara í Kampala á mánudag og ákærð fyrir netáreiti og móðgandi samskipti.
„Hún birti ítrekað um ýmis málefni; háði baráttu á samfélagsmiðlum sem við teljum hvorki þjóna hennar hagsmunum né okkar,“ sagði Kayima.
Síðasta mánudag sagði forsetafrúin og menntamálaráðherrann að hún hefði fyrirgefið Nyanzi, sem sérhæfir sig í stöðu kynferðismála í Afríku. Fræðimaðurinn, sem sumum þykir ögra með störfum sínum, hafði ásakað Museveni um að vera úr tengslum við almenning.
Handtaka Nyanzi hefur verið harðlega gagnrýnd en með henni þykja stjórnvöld hafa vegið freklega gegn málfrelsinu.