Sá sem grunaður er um að hafa verið undir stýri vöruflutningabílsins sem var ekið inn í mannfjölda í Stokkhólmi á föstudag er sagður hafa játað glæpinn. Þessu er greint frá í sænska fjölmiðlinum Expressen.
Hann mun hafa sagt við rannsóknarlögreglumenn að hann „væri sá sem gerði þetta“, hann væri „ánægður með það sem hann hefði gert“ og að honum hefði „heppnast það sem hann ætlaði sér,“ segir í Expressen.
Greint hefur verið frá því að maðurinn sé 39 ára gamall Úsbeki en bæði Expressen og Aftonbladet hafa nafngreint hann sem Rakhmat Akilov, byggingaverkamann og fjögurra barna föður.
Lögreglan hefur lýst honum sem stuðningsmanni Ríkis íslams, sem fór í felur eftir að umsókn hans um dvalarleyfi var hafnað í fyrra. Ekki hefur verið tiltekið hvort glæpurinn hafi verið framinn í nafni Íslamska ríkisins.
Kona og ellefu ára stúlka frá Svíþjóð létust í árásinni ásamt 41 árs gömlum breskum manni og belgískri konu. Fimmtán særðust, þar á meðal tveir sem eru í lífshættu.