Kom frá Rússlandi í leit að hæli

Mikill viðbúnaður var á svæðinu eftir að lögreglu barst ábending …
Mikill viðbúnaður var á svæðinu eftir að lögreglu barst ábending um grunsamlegan kassa. AFP

Maðurinn sem norska lögreglan handtók fyrir vörslu á heimatilbúinni sprengju er 17 ára hælisleitandi frá Rússlandi. Þessu greinir norski fjölmiðillinn Aftenposten frá. 

Aðfaranótt sunnudags stöðvaði lögreglan mann með kassa, sem svipaði til sprengju, í Grøn­land-hverf­inu í Ósló eftir að hafa fengið ábendingu frá áhyggjufullum borgara. Var svæðið rýmt og taskan sprengd af sérfræðingum. Lögreglan hefur staðfest að í kassanum hafi verið sprengja. 

Maðurinn er 17 ára gamall Rússi sem kom til Noregs til að sækja um hæli árið 2010 og hefur áður komist í kast við lögin. Hann var yfirheyrður í morgun og neitaði sök í málinu að sögn lögfræðingsins. 

„Við erum að tala um öfga-íslamisma. Rannsóknin mun vonandi leiða í ljós hvort lögreglan hafi komið í veg fyrir hryðjuverkaárás,“ segir yfirlögregluþjónninn Benedicte Bjørnland.

Lögreglan hefur yfirheyrt fleiri einstaklinga í tengslum við málið til að komast að því hvort maðurinn hafi verið einn að verki. Þá hafa yfirvöld hækkað hættustig á hryðjuverkaárásum upp í „sennilegt“ næstu tvo mánuðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert