Allt að 50.000 manns söfnuðust saman í Stokkhólmi í dag undir borða „ástarhátíðar“ gegn hryðjuverkum, tveimur dögum eftir að maður varð fjórum að bana þegar hann ók flutningabifreið inn í mannfjölda í miðborginni. Sænskir miðlar segja grunaða Rakhmat Akilov, byggingaverkamann og fjögurra barna föður.
Yfirvöld hafa ekki staðfest að Akilov sé maðurinn sem þau hafa í haldi. Það eina sem þau hafa gefið upp er að um sé að ræða 39 ára Úsbeka sem var stuðningsmaður jíhadista og til stóð að flytja úr landi eftir að hælisumsókn hans var hafnað.
Árásin er sögð hafa verið mikið áfall fyrir Svía, sem syrgja m.a. 11 ára stúlku sem var meðal hinna látnu á föstudag.
„Það er afar mikilvægt að standa sterk saman gegn öllu því sem freistar þess að breyta samfélaginu okkar, sem byggir á lýðræði,“ sagði kona að nafni Marianne, sem sótti samstöðufundinn í dag ásamt aldraðri móður sinni.
„Við ræðum málin, við berjumst ekki,“ sagði hún í samtali við AFP á Sergels-torgi, skammt frá vettvangi árásarinnar.
Önnur kona rétti lögreglumönnum á vakt blóm. „Þakka ykkur fyrir,“ sagði hún brosandi.
„Óttinn mun ekki ríkja. Óttinn má ekki sigra,“ sagði borgarstjórinn Karin Wanngard þegar hún ávarpaði fjöldann. Sagði hún að hryðjuverkamennirnir yrðu sigraðir með „góðmennsku og einlægni“.
Á einum tímapunkti læstu viðstaddir höndum saman og viðhöfðu mínútuþögn fyrir fórnarlömbin á meðan fánar blöktu við hálfa stöng.
„Við svörum ekki með ótta, við svörum með ást,“ sagði á plakati í höndum konu með höfuðklút.
Líkt og fyrr segir stóð til að flytja hinn grunaða úr landi eftir að umsókn hans um dvalarleyfi var hafnað í fyrra. Manninum var tjáð í desember sl. að hann hefði fjórar vikur til að yfirgefa landið en í febrúar var mál hans sent lögreglu þar sem hann var farinn í felur.
Lögreglu virðist ekki hafa tekist að hafa hendur í hári mannsins, sem vitað er að hafði áður komið við sögu sænskra öryggisyfirvalda. Vegna hvers er ekki vitað.
Samkvæmt sænskum miðlum var ekki að sjá á manninum að hann hefði snúist til öfga. „Hann djammaði og drakk,“ var haft eftir einum vina hans.
Fjölskylda 11 ára stúlkunnar staðfesti í dag að hún hefði verið meðal hinna látnu. Þá greindi utanríkisráðuneytið í Lundúnum frá því að hinn 41 árs gamli Chris Bevington hefði einnig látið lífið. Hann var framkvæmdastjóri hjá Spotify.
Belgísk kona og sænsk kona létust einnig þegar ekið var á þær.
Lögregla greindi frá því í dag að í flutningabifreiðinni hefðu fundist íhlutir sem nota mætti til að smíða „hættulegan búnað“. Þá sagðist hún hafa styrkst í þeirri trú að hinn handtekni Úsbeki væri sannarlega sá sem ók flutningabifreiðinni.