Hungursneyð ríkir nú í Suður-Súdan og að auki eru Jemen, Nígería og Sómalía á barmi hungursneyðar. Ástandið er það versta frá stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmum 70 árum og raunveruleg hætta er á fjórum hungursneyðum í heiminum á sama tíma. Það hefur aldrei gerst áður frá stofnun SÞ.
UNICEF á Íslandi hefur í dag neyðarsöfnun fyrir vannærð börn í Suður-Súdan, Jemen, Nígeríu og Sómalíu. Hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í nr 1900 (1.000 kr). Nærri 1,4 milljónir barna eru í lífshættu í löndunum fjórum og gætu dáið af völdum alvarlegrar vannæringar. Alls ógnar hungursneyð nú lífi allt að 20 milljóna manna.
UNICEF er á vettvangi í öllum fjórum ríkjunum og heldur úti gríðarlega umfangsmiklum neyðaraðgerðum, bæði með hjálp heimsforeldra og þeirra sem styðja neyðarsöfnun UNICEF.
„Þegar hafa fjölmargir hér á landi stutt við neyðaraðgerðir UNICEF í Suður-Súdan og það veitir okkur von að finna þann mikla stuðning. Þar sem hungursneyð vofir nú yfir í þremur ríkjum til viðbótar höfum við ákveðið að blása til sérstakrar neyðarsöfnunar til að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í fréttatilkynningu vegna söfnunarinnar.
Hungursneyð snertir fólk afar misjafnt eftir aldri. Slíkt neyðarástand er langhættulegast ungum börnum. Helmingurinn af þeim sem lést í hungursneyðinni í Sómalíu árið 2011 voru börn yngri en fimm ára. Sú hungursneyð var sú seinasta í heiminum á undan Suður-Súdan nú í ár.
Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu – hættulegasta formi vannæringar – er níu sinnum líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast. Þetta geta til dæmis verið malaría, lungnabólga og niðurgangspestir.
Niðurgangspestir og mislingar voru megindánarorsökin í hörmungunum í Sómalíu fyrir sex árum. Það sama á við nú og þá að börn deyja ekki einungis vegna skorts á mat. Þau látast einnig vegna þess að þau drekka mengað vatn sem orsakar niðurgangspestir, hafa ekki aðgang að heilsugæslu og missa af lífsnauðsynlegum bólusetningum. Allt gerir þetta þau útsettari en ella fyrir margvíslegum sjúkdómum.
„UNICEF leggur af þessum sökum þunga áherslu á að veita margþátta neyðarhjálp: Bjarga lífi vannærðra barna með því að veita þeim nauðsynlega meðferð, dreifa hreinu vatni, bólusetja börn, tryggja þeim heilsugæslu og sjá til þess að hreinlætismál séu í lagi,“ segir Bergsteinn.
Ástandið nú má að miklu leyti rekja til stríðs og átaka en einnig til mikilla þurrka.
Í Suður-Súdan var nýverið lýst yfir hungursneyð í Unity-fylki en blóðug átök hafa staðið þar yfir síðastliðin ár. Búist er við að 4,9 til 5,5 milljónir manna muni þurfa á neyðarhjálp að halda ef fram heldur sem horfir.
Það sem af er ári hafa UNICEF og samstarfsaðilar náð til nærri 200.000 manna í Suður-Súdan með neyðarhjálp, þar af til 49.848 barna yngri en fimm ára. Þetta hefur verið gert í 13 björgunaraðgerðum.
Í Jemen hafa hörð átök geisað síðastliðin tvö ár og nærri hálf milljón barna þjáist nú af alvarlegri bráðavannæringu. Það er 200% aukning frá árinu 2014. Að minnsta kosti 7,3 milljónir íbúa landsins þarfnast mataraðstoðar til að draga fram lífið.
UNICEF hefur bólusett meira en 4,8 milljónir barna gegn mænusótt í Jemen og rúmlega 650.000 gegn mislingum. Þá hafa 237.000 börn fengið meðferð við vannæringu.
Í norðausturhluta Nígeríu er búist við að 450.000 börn verði alvarlega vannærð í ár. Þetta er meðal annars vegna hryðjuverkasamtakanna Boko Haram sem hafa skapað neyðarástand sem ekki sér fyrir endann á.
Í Nígeríu hefur UNICEF veitt ótal börnum meðferð gegn vannæringu, meðal annars með hjálp frá Íslandi. Þúsundir landsmanna studdu neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Nígeríu fyrir jól. Nærri 700.000 manns hafa fengið aðgang að hreinu vatni og 170.000 lífshættulega vannærð börn hafa fengið nauðsynlega meðferð.
Í Sómalíu býr nærri helmingur þjóðarinnar við alvarlegt fæðuóöryggi og þarf á hjálp að halda. Það eru fleiri en 6 milljónir manna. Ástæða neyðarinnar eru meðal annars miklir þurrkar sem eru umfangsmeiri en í hungursneyðinni árið 2011. Þurrkarnir sem byrjuðu í norðurhlutanum í fyrra hafa nú breiðst út um allt landið. Regntímabilið fyrir jól brást og í flestum landshlutum náði vatnsmagnið ekki 40% af því sem er í venjulegu árferði.
Í Sómalíu sér UNICEF nú til þess að 1,5 milljónir manna fái aðgang að hreinu vatni og undirbýr bólusetningu gegn kóleru sem ná mun til hálfrar milljónar manna.
Hægt er að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið BARN í nr 1900, gefa með kreditkorti hér og leggja inn á reikning 701-26-102050, kt 481203-2950.