Höfðu margoft varað við honum

Lögreglumaður á verði i Ósló, höfuðborg Noregs.
Lögreglumaður á verði i Ósló, höfuðborg Noregs. AFP

„Ég hef bara beðið eftir því að þetta gerðist. Ég hef tilkynnt hann aftur og aftur,“ er haft eftir ónafngreindum einstaklingi í frétt norska ríkisútvarpsins NRK sem þekkt hefur 17 ára hælisleitanda, sem handtekinn var í Ósló, höfuðborg Noregs, aðfaranótt sunnudagins með heimatilbúna sprengju í fórum sínum, frá því að hann kom til landsins.

Fram kemur í frétt NRK að fólk sem þekkir til unglingsins hafi ítrekað haft samband við yfirvöld og lýst áhyggjum sínum af öfgafullum skoðunum hans. Unglingurinn er fæddur í Rússlandi en talið er að hann hafi komið til Noregs árið 2010 í gegnum landamæri ríkjanna við Norður-Íshaf. Hann hefur búið í Norður-Noregi með fjölskyldu sinni. Unglingurinn var liðtækur íþróttamaður og stundaði meðal annars sjálfsvarnaríþróttir með góðum árangri.

Hins vegar fór að bera á öfgasinnuðum skoðunum hjá unglingnum í anda íslamisma segir áfram í fréttinni. Fólk í kringum hann hafi haft vaxandi áhyggjur af því og að lokum haft samband við lögregluna á staðnum sem ræddi við unglinginn og hafði ennfremur samband við norsku leyniþjónustuna. Á þeim tíma var hann 15 ára gamall.

Neitar sök og að vera öfgafullur íslamisti

Það var á þeim tíma sem fór að bera á stuðningi hjá unglingnum við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams að sögn þeirra sem umgengust hann. Hann var meðal annars í sambandi við Norðmann sem síðar fór til Sýrlands til þess að berjast fyrir samtökin. Unglingurinn flutti til Óslóar síðasta haust til þess að stunda nám við framhaldsskóla.

Ekki eru þó allir þeirrar skoðunar að unglingurinn sé hættulegur. Einn viðmælenda NRK segist ekki trúa því að hann hafi gert eitthvað alvarlegt af sér. „Hann er ekki þannig. Hann er mjög kurteis drengur og kemur úr vingjarnlegri fjölskyldu. Það hlýtur einhver annar að vera á bak við þetta.“ Þjálfari unglingsins telur samfélagið bera sökina og stjórnmálamenn fyrir að taka ekki á fátækt fólks. Það skapi „reiði í hjarta ungs fólks“.

Fram kemur í fréttinni að unglingurinn sé með opna Facebook-síðu en þar sé ekki að finna efni sem bendi til sérlega öfgafullra skoðana. Verjandi hans, Aase Karine Sigmond, segir skjólstæðing sinn saklausan að eigin sögn. „Hann segist ekki vera öfgasinnaður og ekki íslamisti og andvígur Ríki íslams, ofbeldi og öfgafullum íslamisma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert