Sótti um landvist undir öðru nafni

Sænski fáninn blaktir við hálfa stöng.
Sænski fáninn blaktir við hálfa stöng. AFP

Þegar Rakhmat Akilov sótti um leyfi til landvistar í Svíþjóð árið 2014, gerði hann það undir allt öðru nafni: Rahmatjon Kurbonov. Þetta kemur fram í frétt Aftonbladet.

Nú, þremur árum síðar, er hann grunaður um að hafa ekið vörubíl yfir gangandi vegfarendur í Stokkhólmi og þannig orðið að minnsta kosti fjórum að bana.

Nefnd innflytjendamála hafnaði umsókn hans og úrskurðaði að hann skyldi fluttur úr landi. Akilov áfrýjaði þá úrskurðinum til sérstaks dómstóls í innflytjendamálum, þar sem málflutningur fór fram í september á síðasta ári.

Ástæðurnar sem hann gaf fyrir umsókninni voru á þann veg að hann hefði verið handtekinn í heimalandi sínu, Úsbekistan, og sakaður af yfirvöldum um að vera hryðjuverkamaður.

Þá sagði hann að ættingi hans hefði hjálpað honum að komast út úr fangelsi með því að múta yfirvöldum með fjárhæð að andvirði tíu þúsund bandaríkjadala, eða fyrir rúma milljón króna.

Hann hefði þá flúið til Svíþjóðar um borð í vörubíl, og aðeins farið úr honum einu sinni á leið sinni, í Danmörku.

Rétturinn breytti þó ekki úrskurði nefndarinnar. Framburður Akilov var ekki tekinn trúanlegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka