„Þið eruð ekki ein, við hugsum til ykkar“

AFP

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfen, ávarpaði mannfjölda fyrir utan ráðhúsið í Stokkhólmi þar sem þeirra var minnst sem létust í hryðjuverkaárásinni í borginni á föstudaginn þar sem fjórir létu lífið og 15 særðust þegar vörubifreið var ekið á gangandi vegfarendur. Tæplega fertugur karlmaður frá Úsbekistan er grunaður um verknaðinn. Borgarstjóri Stokkhólms vera viðstaddur og flestir meðlimir sænsku konungsfjölskyldunnar.

„Þið eruð ekki ein, við hugsum til ykkar. Öll Svíþjóð stendur með ykkur,“ sagði Löfen í ávarpi sínu en mínútuþögn var í morgun í landinu til þess að minnast þeirra sem létust. Maðurinn sem grunaður er um árásina heitir Rakhmat Akilov og sótti um dvalarleyfi í Svíþjóð árið 2014 en þeirri beiðni var hafnað. Var honum veittur fjögurra vikna frestur í desember 2016 til þess að yfirgefa landið. Hann lét sig hverfa í kjölfarið og hóf lögreglan þá leit að honum.

Vitað var að Akilov hafði samúð með málstað hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams en ekki var þó talið að mikil hætta stafaði af honum að sögn lögreglunnar. Grunur hefur beinst að öðrum einstaklingi sem talið er að hafi hugsanlega tengst árásinni og hefur hann verið tekinn höndum. Lögreglan hefur yfirheyrt um 500 manns í kjölfar árásarinnar. Engin samtök hafa til þessa lýst yfir ábyrgð á árásinni samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fram kemur í fréttinni að Svíþjóð hafi tekið við tæplega 200 þúsund flóttamönnum og hælisleitendum undanfarin ár sem sé meira miðað við höfðatölu en nokkurt annað Evrópuríki. Hins vegar hafi dregið úr fjölguninni eftir að sænsk stjórnvöld komu á strangari landamæragæslu. Talið er að fleiri sænskir ríkisborgarar hafi gengið til liðs við Ríki íslams en í nokkru öðru Evrópuríki miðað við höfðatölu. Þá er talið að á bilinu 140-300 þeirra hafi snúið aftur til Svíþjóðar.

Stefan Löfven. forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven. forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert