Hin belgíska Maïlys Dereymaeker var í helgarheimsókn í Stokkhólmi til að hitta góða vini. Hún náði aldrei að hitta þá því hún var fyrsta fórnarlamb Úsbekans Rakhmat Akilov sem varð fjórum að bana þegar hann ók inn í mannfjölda í miðborg Stokkhólms á föstudag.
Dereymaeker var 31 árs, bjó í borginni Halle og átti 18 mánaða son. Hún starfaði sem sálfræðingur og aðstoðaði m.a. með hælisleitendur. Hún hafði mælt sér mót við vini sína á gatnamótum Drottninggatan og Olof Palmes gata og var komin á staðinn á undan vinum sínum. Í stað þess að hitta vinina varð hún fyrir flutningabílnum. Hún var ekki með nein skilríki á sér er hún fannst og voru því ekki borin kennsl á hana fyrr en tæknimenn fundu skilríki hennar við skoðun á vettvangi árásarinnar, að því er belgíska blaðið Sudpresse greinir frá.
Dirk Pieters, borgarstjóri Halle, sagði í samtali við belgíska blaðið Het Nieuwsblad, að hann þekkti foreldra Dereymaekers og þó að hver svona árás sé óneitanlega áfall sé áfallið enn meira þegar maður þekki fórnarlambið.
Het Nieuwsblad segir Dereymaekers hafa verið mikinn tónlistarunnanda, hún hafi m.a. spilað á þverflautu í hljómsveit og veitt börnum tónlistarkennslu.
Breska utanríkisráðuneytið greindi þá frá því í gær að Bretinn sem einnig lést í árásinni hafi heitið Chris Bevington. Hann var 41 árs gamall og vann hjá Spotify í Stokkhólmi.
Aftonbladet segir Daniel Ek, einn af stjórnendum Spotify, hafa lýst sorg sinni yfir láti Bevingtons á Facebook.
„Chris hefur verið hluti af teymi okkar í rúm fimm ár. Hann hefur leikið þar stórt hlutverk, ekki bara fyrir fyrirtækið heldur líka fyrir öll okkar sem nutu þeirra forréttinda að fá að kynnast honum og vinna með honum. Það eru engin orð yfir hve sárt hans verður saknað,“ sagði í færslu Eks.
Bevington fæddist í Suður-Afríku og ólst þar upp, en flutti síðar til Bretlands. Hann gifti sig i júní 2012 og skilur eftir sig fjögurra ára son.
Bevington er lýst sem gjafmildum manni, sem lýsi sér m.a. í því að þau hjónin hafi óskað eftir að brúðkaupsgestir þeirra létu frekar fé renna til góðgerðarmála en að gefa þeim brúðkaupsgjafir.
Ekki hafa enn verið gefin upp nöfn sænsku fórnarlambanna tveggja, en sænska dagblaðið Expressen greindi þó frá því á laugardag að 11 ára stúlka, sem var á leið heim úr skóla, hafi verið meðal þeirra sem létust.