Lena Wahlberg, 69 ára kona frá Ljungskile í Svíþjóð er þriðja fórnarlamb hryðjuverkaárásarinnar á föstudag sem búið er að nafngreina. Fjórir létust þegar Úsbekinn Rakhmat Akilov ók inni mannþröng í miðborg Stokkhólms, en áður var búið að greina frá því að 41 árs Breti, Chris Bevington, og 31 árs belgísk kona, Maïlys Dereymaeker, væru í hópi fórnarlambanna. Ekki hefur enn verið gefið upp nafn á 11 ára sænskri stúlku sem einnig lést.
Vefur sænska Aftonbladet hefur eftir fjölskyldu Wahlberg að hún hafi verið í Stokkhólmi í heimsókn þegar árásin var gerð. Fjölskyldan vill að öðru leiti ekki tjá sig um málið.
Svæðisútvarp sænska ríkisútvarpsins P4 segir Wahlberg hafa verið formann mannréttindasamtakanna Amnesty International í sinni heimabyggð.
Bevington var starfsmaður Spotify og hafði unnið í Stokkhólmi í rúm 5 ár og er lýst af samstarfsfólki sínu sem einkar gjafmildum manni. Dereymaeker var í helgarheimsókn í borginni til að heimsækja vini. Hún náði aldrei að hitta þá, því að Akilov ók yfir hana þar sem hún beið þess á gatnamótum að hitta þau. Dereymaeker starfaði sem sálfræðingur og aðstoðaði m.a. með hælisleitendur í heimaborg sinni Halle.
Átta eru enn á sjúkrahúsi eftir árásina og er ástand tveggja þeirra enn alvarlegt. Einn þeirra sem fluttur var á gjörgæslu eftir árásina hefur nú verið útskrifaður.
Akilov var færður fyrir dómara í Stokkhólmi í dag og játaði hann sekt sína. Dómstóllinn þarf nú að taka afstöðu til þess hversu langa gæsluvarðhaldsvist hann verði úrskurðaður í.