Segir farþegann hafa látið „dólgslega“

Öryggisverðir drógu manninn úr sæti sínu og út úr vélinni.
Öryggisverðir drógu manninn úr sæti sínu og út úr vélinni. Skjáskot/Twitter

Forstjóri United Airlines segir að starfsmenn hafi fylgt verklagsreglum er þeir létu fjarlægja farþega með valdi frá borði þotu félagsins á sunnudag. Í tölvupósti til starfsmanna segir hann að farþeginn hafi verið „truflandi“ og látið „dólgslega“.

Málið hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð víða um heim en yfirbókað var í vélina sem var á leið frá Chicago til Louisville. Þegar þurfti að koma fjórum starfsmönnum flugfélagsins fyrir var óskað eftir sjálfboðaliðum meðal farþega til að yfirgefa vélina og fljúga síðar. Enginn gaf sig fram.

Á myndböndum af atvikinu virðist sem starfsmenn félagsins og flugvallarins, m.a. öryggisverðir, komi inn og dragi mann með miklu valdi frá borði, svo miklu að höfuð hans slæst við sætið svo blóð rennur. Sá reyndist læknir á heimleið að sinna sjúklingum. Óánægjan er ekki minnst meðal Kínverja sem segja að maðurinn hafi verið valinn til að yfirgefa vélina þar sem hann er af asísku bergi brotinn.

Bandarískir fjölmiðlar hafa nú birt bréf sem forstjóri United Airlines, Oscar Munoz sendi starfsmönnum félagsins. Í bréfinu sagðist hann leiður að heyra af því sem gerðist en bætti svo við að hegðun mannsins hefði ekki verið í lagi. Starfsmenn hefðu fylgt verklagsreglum í aðgerðum sínum. „Þó að ég harmi að þetta atvik hafi komið upp þá stend ég algjörlega með ykkur öllum,“ sagði forstjórinn í bréfi til starfsmanna.

Þessi skilaboð hans voru eins og olía á eld þeirra sem blöskraði framgangur starfsfólksins um borð í vélinni. Er Munoz nú sakaður um að sjá og heyra ekki það sem máli skiptir í þessu sérkennilega máli.

Munoz segir í bréfi sínu að farþeginn hafi neitað að fara sjálfviljugur frá borði og því hafi starfsfólkið „ekki haft um neitt annað að velja“ en að hringja í öryggisverði flugvallarins og fá aðstoð við að koma manninum út úr vélinni.

„Völdu asíska lækninn“

Fjölmargir farþegar sem voru um borð hafa birt myndskeið af atvikinu. Þeir segja allir sömu sögu: Óskað var eftir fjórum sjálfboðaliðum til að fara frá borði vélarinnar vegna þess að starfsmenn félagsins þurftu að fljúga til að komast til vinnu næsta dag. „Enginn bauð sig fram svo að United ákvað að velja fyrri okkur. Þeir völdu asíska lækninn og eiginkonu hans,“ segir Jayse D. Anspach sem var um borð og birti myndskeið af atvikinu á Twitter. Anspach segir að læknirinn hafi neitað að fara út úr vélinni og sagst þurfa að mæta til vinnu á sjúkrahúsi daginn eftir.

Stjórnendur flugvallarins í Chicago hafa tekið nokkuð öðruvísi á málinu en forstjóri flugfélagsins. Öryggisvörður sem átti þátt í því að draga manninn frá borði hefur verið leystur frá störfum tímabundið á meðan málið er til rannsóknar.

Frétt BBC um málið 

Frétt Washington Post um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert