Sean Spicer, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, hefur beðist afsökunar á óvarfærnum ummælum sem hann lét falla á blaðamannafundi fyrr í dag, þar sem hann sagði Adolf Hitler, fyrrverandi leiðtoga Þýskalands á tímum nasista, ekki hafa beitt efnavopnum gegn borgurum landsins.
„Í hreinskilni, þá notaði ég óviðeigandi og tillitslaus orð um helförina og það er enginn samanburður,“ sagði Spicer í samtali við fréttastofu CNN. „Ég biðst afsökunar á því. Það voru mistök.“
Fyrr í kvöld greindi mbl.is frá því að Spicer hefði vafist tunga um tönn á blaðamannafundinum þegar hann virtist, að minnsta kosti um sinn, gleyma því að helförin hefði átt sér stað.
Spicer var að tala um efnavopnaárásina sem gerð var í Sýrlandi í síðustu viku, sem Bandaríkjastjórn sakar sýrlensku ríkisstjórnina um að hafa skipulagt, þegar hann sagði: „Þú hafðir einhvern jafn fyrirlitlegan og Hitler, sem lagðist ekki einu sinni svo lágt að nota efnavopn.“
Ummælin féllu á fyrsta degi páskahátíðar gyðinga og vöktu vægast sagt undrun í salnum.