Brúsi með kveikjaragasi og naglar voru efniviður sprengjunnar sem 17 ára gamall rússneskur drengur var tekinn með í Ósló á laugardagskvöld. Norska ríkisútvarpið NRK segir samfélagsmiðlanotkun drengsins benda til þess að hann hafi stutt hryðjuverk. Hann hafi m.a. „líkað við“ prófílmynd Jihad John, breskættaðs vígamanns hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, og á einni samfélagsmiðlasíðu hans sé mynd sem hyllir hryðjuverkaárásina á Tvíburaturnana í New York 2001.
Drengurinn var síðdegis í gær dæmdur í tveggja vikna gæsluvarðhald.
Aase Karine Sigmond, verjandi drengsins, sem neitar sekt, segir hann ekki vera stuðningsmann Ríkis íslams og vísar til þess að myndin var birt 2015. „Minnist þess að hann var 15 ára barn,“ sagði Sigmond. „Þetta er á sama tíma og hann var í sambandi við æskuvini sem höfðu snúist til öfgatrúar, en sjálfur hefur hann afneitað henni með öllu.“
Hún hefur neitað að tjá sig um hina meintu sprengju, en segir þó frekar um strákapör en hryðjuverk að ræða.
Kathrine Tonstad saksóknari vil ekki tjá sig um innihald samfélagsmiðlasíðna drengsins, en segir öryggislögreglu hafa þekkt til hans þar sem hann hafi verið farinn að aðhyllast öfgastefnu innan íslamstrúar. Tonstad staðfesti enn fremur að sprengibúnaðurinn hafi verið naglar sem hafi verið límdir utan á brúsa með kveikjaragasi, sem sé vissulega frumstæður sprengibúnaður.
NRK hefur eftir sprengjusérfræðingnum Per Nergaardn að gassprenging geti vissulega valdið skaða, en ólíklegt sé að kveikjaragas í brúsa með áfestum nöglum valdi miklu tjóni. Það að naglarnir hafi verið límdir utan á sé hins vegar sönnun þess að drengurinn hafi ætlað sér að valda skaða, jafnvel þótt framkvæmdin hafi verið viðvaningsleg og ólíkleg til árangurs.