Hin 11 ára gamla Ebba Åkerlund var eitt fórnarlamb hryðjuverkaárásarinnar í miðborg Stokkhólms á föstudag. Er hún sú síðasta þeirra til að vera nafngreind, en áður var búið að greina frá því að 69 ára gömul sænsk kona Lena Wahlberg, 41 árs Breti, Chris Bevington, og 31 árs belgísk kona, Maïlys Dereymaeker, hefðu látið lífið þegar Úsbekinn Rakhmat Akilov ók inni mannþröng í miðborg Stokkhólms.
Ebba var á leið heim úr skóla þegar Akilov ók á hana á flutningabíl sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi nokkru fyrr. Ebba hafði sagt skilið við skólafélaga sína sem héldu áfram heim með strætó, því hún hafði mælt sér mót við móður sína og var á leið í neðanjarðarlestina þegar hún lést.
Hennar var fljótt saknað og þegar ekki náðist í hana í síma var auglýst eftir henni, m.a. á samfélagsmiðlum að sögn Aftonbladet. Borin voru kennsl á hana á laugardag og óskaði fjölskyldan í kjölfarið eftir næði til að syrgja.
Fjölskyldan hefur nú þakkað sænskum fjölmiðlum og almenningi fyrir að virða þessa bón. „Við þökkum sænsku þjóðinni af okkar dýpstu hjartarótum fyrir þá hlýju og kærleik sem hún hefur sýnt okkur á þessum sáru og erfiðu tímum,“ sagði í yfirlýsingu frá fjölskyldunni.
Wahlberg, var formaður mannréttindasamtakanna Amnesty International í heimabyggð sinni Ljungskile. Hún var í heimsókn í Stokkhólmi þegar árásin var gerð. Það sama á við um Dereymaeker, sem var í helgarheimsókn í borginni til að heimsækja vini. Hún náði aldrei að hitta þá, því að Akilov ók yfir hana þar sem hún beið þess á gatnamótum að hitta þau. Dereymaeker starfaði sem sálfræðingur og aðstoðaði m.a. með hælisleitendur í heimaborg sinni Halle.
Bevington var starfsmaður Spotify og hafði unnið í Stokkhólmi í rúm 5 ár og er lýst af samstarfsfólki sínu sem einkar gjafmildum manni.
Átta eru enn á sjúkrahúsi eftir árásina og er ástand tveggja þeirra enn alvarlegt. Einn þeirra sem fluttur var á gjörgæslu eftir árásina hefur nú verið útskrifaður.
Akilov var færður fyrir dómara í Stokkhólmi í gær og játaði hann sekt sína.