Assad: Efnavopnaárásin tilbúningur

 Bashar-al Assad Sýrlandsforseti segja að fréttir af efnavopnaárás hers síns séu „100% tilbúningur.“ Þetta segir hann í einkaviðtali við AFP-fréttastofuna. „Það var engin skipun gefin um nokkra árás.“

Yfir áttatíu létust, meðal annars börn, í árásinni sem gerð var á þorpið Khan Sheikhoun þann 4. apríl. Þorpið er á yfirráðasvæði uppreisnarmanna sem Assad hefur nú háð sex ára stríð við. Tyrkir segjast hafa sannreynt að sarín-taugagasi hafi verið beitt í árásinni.

Sjónarvottar segja að orrustuþotur hafi flogið yfir þorpið. Rússar hafa sagt að þeir hafi ekki beitt efnavopnum en að orrustuþotur hafi varpað sprengjum á vopnabúr uppreisnarmanna þar sem efnavopn hafi verið geymd.

Á myndskeiðum sem tekin voru á vettvangi árásarinnar mátti sjá börn berjast við að ná andanum og froðu vella úr munnvikjum þeirra. 

Nokkur fórnarlömb árásarinnar voru flutt til nágrannalandsins Tyrklands til meðferðar. Heilbrigðisráðherra Tyrkja segir að samkvæmt rannsóknum á þeim sé ljóst að um sarín-taugagas hafi verið að ræða. 

Assad segir í samtali við AFP að sýrlensk yfirvöld hafi latið efnavopnabúr sitt af hendi árið 2013 og bætti við: „Jafnvel þótt við ættum þau, myndum við ekki nota þau.“

Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna komst að því að Sýrlandsher hefur beitt efnavopnum gegn óbreyttum borgurum í stríðinu, m.a. árið 2013.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert