Lögmenn karlmanns sem var dreginn með valdi frá borði flugvélar United Airlines hafa skilað inn neyðarkröfu til dómstóla þar sem farið er fram á að flugfélagið varðveiti sönnunargögn vegna málsins.
Á myndskeiðum sem tekin voru af öðrum farþegum um borð má sjá þegar David Dao var dreginn úr sæti sínu og eftir gangi farþegarýmisins. Var þetta sagt gert þar sem yfirbókað var í sæti vélarinnar og fjórir farþegar voru beðnir um að yfirgefa vélina. Það vildi Dao ekki gera og voru því öryggisverðir kallaðir til sem drógu hann út með valdi. Atvikið átti sér stað á O´Hare flugvellinum í Chicago.
Á myndböndunum má sjá að Dao slasast við aðfarirnar og blóð rennur niður höfuð hans. Þá virðist hann vankast.
United Airlines óskuðu eftir sjálfboðaliðum til að yfirgefa vélina. Enginn bauð sig fram og völdu starfsmenn félagsins því fjóra farþega af handahófi. Dao var einn af þeim. Félagið segist hafa boðið farþegunum fjórum bætur fyrir að fresta flugi sínu.
Forstjóri félagsins varði í fyrstu aðgerðir starfsmanna sinna og sagði farþegann hafa hagað sér dólgslega. Hann baðst afsökunar síðar þann dag. Forstjórinn, Oscar Munoz, segist ekki ætla að segja af sér vegna málsins. Hann hefur heitið því að atvik sem þetta muni aldrei aftur koma upp hjá flugvélaginu. Hlutabréf í United Airlines hafa fallið í verði síðustu daga og fjölmargir segjast ætla að sniðganga félagið.
Þrír öryggisverðir, sem tóku þátt í aðgerðinni, hafa verið leystir frá störfum tímabundið á meðan málið er til rannsóknar. Þeir voru starfsmenn flugvallarins.
Dao var enn á þriðjudag að jafna sig á sjúkrahúsi í Chicago að sögn lögfræðings hans. Í dag er von á því að fjölskylda mannsins haldi blaðamannafund vegna málsins.
Í kröfu lögfræðinga Daos, sem lagðir voru fyrir dómstóla í Illinois, er þess krafist að United Airlines, sem og borgaryfirvöld í Chicago, varðveiti sönnunargögn, m.a. upptökur úr eftirlitsmyndavélum, samskipti flugmanna og flugstjóra í flugstjórnarklefa, farþegalista og fleira sem tengist umræddu flugi.
Flugfélagið segist nú hafa boðið farþegum sem voru um borð í vélinni er atvikið átti sér stað bætur.
Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna rannsakar nú hvort að United hafi brotið lög með aðgerðum sínum um borð í vélinni.