Læknir ákærður fyrir limlestingar

Kynfæralimlestingar eru algengar í Indónesíu, Eþíópíu, Egyptalandi og víðar. Þær …
Kynfæralimlestingar eru algengar í Indónesíu, Eþíópíu, Egyptalandi og víðar. Þær eru alfarið bannaðar með lögum í 25 ríkjum Bandaríkjanna. AFP

Læknir í Detroit í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn og ákærður fyrir kynfæralimlestingar á stúlkum á aldrinum 6-8 ára.

Læknirinn heitir Jumana Nagarwala og er 44 ára. Hún er sökuð um að framkvæma aðgerðir á kynfærum stúlknanna sem eru bannaðar með lögum í Bandaríkjunum. Aðgerðirnar er hún talin hafa framkvæmd á einkastofu í Michigan á tólf ára tímabili.

Nagarwala kom fyrir alríkisdómstól í Detroit í dag og verður áfram í haldi, að minnsta kosti fram á mánudag, að sögn talsmanns saksóknarans. Hún á yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm.

Árið 1996 var samþykkt á Bandaríkjaþingi að banna kynfæralimlestingar á fólki undir átján ára aldri með lögum í öllu landinu. Í 25 ríkjum eru slíkar aðgerðir bannaðar alfarið.

Sum fórnarlamba læknisins komu úr öðrum ríkjum en Michigan. Þeim var sagt að segja ekki frá aðgerðinni sem miðar að því að skera í burtu hluta af kynfærunum. 

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur einsett sér að stöðva kynfæralimlestingar kvenna í landinu. Talsmaður þess segir að allt verði gert til að sjá til þess að stúlkur þurfi ekki að þola slíkt líkamlegt og andlegt ofbeldi.

Um 200 milljón núlifandi kvenna í þrjátíu löndum heimsins hafa verið limlestar með þessum hætti, að mati Sameinuðu þjóðanna. 

Limlestingin er algengust í Afríkuríkjum en einnig þekkist hún meðal þjóðarbrota í Asíu, Arabalöndum og í Suður-Ameríku. Algengastar eru þær í Egyptalandi, Eþíópíu og Indónesíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert