100% lygar, 100% grimmd

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands.
Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands. AFP

Ummæli Bashar al-Assad Sýrlandsforseta um efnavopnárásina í Khan Sheikhoun í síðustu viku eru „100 prósent lygar“, segir Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands. Assad hélt því fram í vikunni að árásin væri tilbúningur til að réttlæta árás Bandaríkjamanna á skotmörk í Sýrlandi.

„Þetta eru 100 prósent lygar og áróður,“ sagði Ayrault í opinberri heimsókn í Kína. „Þetta er 100 prósent grimmd og kaldhæðni,“ bætti hann við.

Ráðherrann endurnýtti orðalag Assad sjálfs, sem sagði við AFP á miðvikudag að efnavopnaárásin, sem vesturveldin segja hafa orðið 87 að bana,  væri „100 prósent tilbúningur“. Sagði hann að verið væri að beita fölsuðum myndskeiðum og áróðri gegn stjórn hans.

„Sannleikurinn er sá að fleiri en 300.000 hafa látist, 11 milljónir eru á vergangi eða orðnir flóttamenn, tugþúsundir sitja í sýrlenskum fangelsum og landið hefur verið lagt í rúst,“ sagði Ayrault á blaðamannafundi með kollega sínum Wang Yi. „Það er raunveruleikinn. Þetta er ekki fantasía.“

Ayrault hrósaði Kína fyrir framgöngu sína í málinu en fulltrúi Kína í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sat hjá við atkvæðagreiðslu um fordæmingu árásarinnar. Hingað til hafa Kínverjar, ásamt Rússum, beitt neitunarvaldi sínu í málum er varða átökin í Sýrlandi.

Wang sagði að „sjálfstæð, sanngjörn og fagmannleg“ rannsókn þyrfti að fara fram sem fyrst.

Meðvitundarlaust barn liggur í fangi manns eftir efnavopnaárásina í Khan …
Meðvitundarlaust barn liggur í fangi manns eftir efnavopnaárásina í Khan Sheikhoun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert