Assad á „hundruð tonna“ af efnavopnum

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. AFP

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, býr yfir hundruðum tonna af efnavopnum eftir að hafa blekkt sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna sem voru sendir til landsins til að gera þau óvirk. Þetta segir fyrrverandi yfirmaður efnavopnarannsókna í Sýrlandi.

Zaher al-Sakad, sem starfaði sem yfirmaður efnavopna í fimmtu herdeild Sýrlands þangað til hann flúði land árið 2013, sagði í viðtali við The Telegraph að stjórnvöld í Sýrlandi hafi ekki sagt frá miklu magni sarins og fleiri eiturefna sem eru geymd í landinu.

Árið 2014 var greint frá því að Sýrland hefði látið af hendi öll efnavopn sín til Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi sem Bandaríkjamenn og Rússar stóðu að. Samningurinn var gerður eftir að hundruð manna fórust í sarin-gasárás í úthverfum höfuðborgarinnar Damaskus.

Samningurinn er sagður hafa komið í veg fyrir að Bandaríkjamenn gerðu loftárás á Sýrland.

Assad hélt því fram í fyrr í þessari viku að engin efnavopn væru til staðar í landinu en stutt er síðan 86 manns fórust í efnavopnaárás í bænum Khan Sheikhoun, þar á meðal hópur barna.

„Ríkisstjórnin viðurkenndi aðeins að eiga 1.300 tonn en við vissum að í raun og veru átti hún næstum tvöfalt það magn,“ sagði Sakat við The Telegraph. „Hún átti að minnsta kosti 2.000 tonn. Að minnsta kosti.“

Hamish de Bretton-Gordon, fyrrverandi hershöfðingi í efnavopnadeild breska hersins, segir að talan sem Sakat nefndi sé hærri en þau um það bil 200 tonn sem hann telur sjálfur að séu í Sýrlandi. Hann bætti því samt við að fullyrðing Sakat væri „sennileg“.

Sakat telur að á meðal efnavopna í Sýrlandi séu mörg hundruð tonn af sarin-gasi, auk loftsprengja sem hægt er að fylla með eiturefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert